Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í dag, að Kristján L. Möller, samgönguráðherra, hefði svikið það sem hann lofaði kjósendum fyrir kosningar, að strax verði hafist handa við Vaðlaheiðargöng, þau verði í ríkisframkvæmd og gjaldfrjáls. Kristján sagðist aldrei hafa útilokað að Vaðlaheiðargöng verði í einkaframkvæmd og hann myndi leita leiða til að hefja vinnu við undirbúning ganganna sem fyrst.
Valgerður sagði, að allmörg ár hefði verið til umfjöllunar möguleiki á jarðgöngum undir Vaðlaheiði og gríðarlegur stuðningur væri við þá framkvæmd á Norðurlandi. Í samgönguáætlun til fjögurra ára, sem afgreidd var á Alþingi í vor, var samþykkt að verja 300 milljónum til verksins til ársins 2010 og alltaf hefði verið rætt um þetta sem einkaframkvæmd.
Í kosningabaráttunni hefði Kristján L. Möller hins vegar lýst því yfir, að hægt væri að fara strax í Vaðlaheiðargöng, þau verði unnin á vegum ríkisins og verði gjaldfrjáls. Spurði Valgerður, hvort ekki mætti búast við tillögum að breytingum á samgönguáætlun um að aukið fjármagn verði lagt til verksins nú þegar Kristján væri orðinn samgönguráðherra.
Kristján sagði, að tveir fundir hefðu verið haldnir milli Vegagerðarinnar og félagsins Greiðrar leiðar, sem hefur beitt sér fyrir Vaðlaheiðargöngum. Sagðist Kristján hafa í hyggju, að fara sem fyrst norður að ræða við fulltrúa Greiðrar leiðar um þetta mál. Hann sagði ljóst, að 300 milljónir dygðu skammt til verksins. Þá sagðist Kristján aldrei hafa útilokað að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng verði í einkaframkvæmd.
Valgerður sagði að Samfylkingin hefði sagt fyrir kosningar: Gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax. Annaðhvort yrði Kristján að lýsa því yfir, að hann standi við þessi orð eða viðurkenna að hann sé að svíkja kosningaloforð.
Kristján sagði að af sinni hálfu yrði leitað leiða til að setja þessa vinnu í gang sem fyrst. Allt væri opið í málinu, hvort göngin yrðu í ríkisframkvæmd eða einkaframkvæmd.
Valgerður sagði ljóst, að Kristján hefði með þessum svörum sagt að kosningaloforð Samfylkingarinnar í þessu máli yrði svikið. Sagðist hún telja, að einhverjir hefðu tekið þá ákvörðun að styðja Samfylkinguna í Norðausturkjördæmi út á þessi loforð.