Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sat í morgun samráðsfund leiðtoga evrópskra smáríkja sem haldinn var í boði Alberts II fursta af Mónakó í tengslum við smáþjóðaleikana sem þar hefjast í kvöld.
Í tilkynningu frá skrifstofu forsetans segir, að á fundinum hafi ítarlega verið rætt um þær hættur, sem yfirvofandi loftslagsbreytingar skapa mannkyni og nauðsyn þess að á sérhverju sviði samfélagsins verði gripið til róttækra gagnaðgerða. Fram hafi komið, að loftslagsbreytingar muni skapa fjölda smárra ríkja í veröldinni meiri ógn en öðrum ríkjum vegna þess hve mörg þeirra séu eyríki sem muni bíða verulegt tjón vegna hækkunar sjávarborðs, jafnt á mannvirkjum sem öllu efnahagslífi. Leiðtogarnir ræddu um nauðsyn þess að forystumenn smáríkja tækju saman höndum til að hafa áhrif á aðgerðir á heimsvísu.
Í tilefni af smáþjóðaleikunum samþykktu leiðtogarnir yfirlýsingu þar sem hvatt er til aðgerða í þágu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum með því að vega á móti útblæstri koltvísýrings í andrúmsloftið. Alþjóðleg íþróttamót yrðu kolefnisjöfnuð með markvissum aðgerðum þannig að mengunaráhrif þeirra yrðu hverfandi. Smáþjóðaleikarnir gætu í framtíðinni orðið verðugt fordæmi fyrir önnur alþjóðleg íþróttamót enda væri slík forysta í samræmi við siðferðisgrundvöll hins fjölþjóðlega íþróttastarfs.