Steingrímur: Köld sturta við viðkvæmar aðstæður

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sagði að tillögur Hafró um niðurskurð í þorskveiðum væru alvarleg tíðindi sem kæmu þó ekki alveg á óvart.

„Tillögurnar eru köld sturta yfir menn og ekki góðar fréttir fyrir sjávarútveginn og þjóðarbúið í heild en manni verður náttúrlega strax hugsað til sjávarútvegsins og sjómanna og þeirra áhrifa sem þetta hefur á afkomu í greininni og tekjur og laun og er nú ástandið ekki beysið fyrir, eins og efnahagsmálum hefur verið stjórnað og gengi krónunnar mjög sterkt og vextir háir þannig að þetta hitti sjávarútveginn fyrir við afar viðkvæmar aðstæður," segir Steingrímur.

Hann segir að kvótakerfið, sem hafi verið sett upp sérstaklega til að vernda og byggja upp þorskstofninn, heppnist einfaldlega ekki, án þess að þar með sé sagt að það sé eingöngu við kerfið að sakast. Enginn greinarmunur sé gerður á þeim þorski sem sé veiddur uppi í fjörum á handfæri og göngufiski út á djúpmiðum – kerfið sé alveg blint hvað varðar þær upplýsingar sem alltaf séu að koma fram, t.d. um að fleiri undirstofnar séu að bætast við. Athuga þurfi atriði eins og hrygningu, skilyrði við landið, svo sem framburð jökuláa og svo veiðar á undirstöðufæðutegundum þorsksins og áhrif þess á stofninn.

Steingrímur segir að ekki sé hægt að segja að ráðgjöfin hafi brugðist, hún sé ekki hafin yfir gagnrýni en málið sé bara flóknara en það. Ekki verði undan því vikist að kafa ofan í grunninn á fiskveiðikerfinu, ef kerfið bregðist algjörlega í því að vernda stofninn sé óhjákvæmilegt að skoða aðferðafræðina þó að líffræðilegar ástæður spili þó einnig inn í. Hann segir að menn megi ekki gleyma upphafspunktinum með fiskveiðikerfinu, það hafi verið sett upp til að vernda stofninn en ekki til að verða viðskiptakerfi með veiðiheimildir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert