40 ár frá lokum Surtseyjargossins

Frá Surtseyjargosinu.
Frá Surtseyjargosinu. mbl.is

Í dag, þegar 40 ár eru liðin frá lokum Surtseyjargossins, var undirritaður samningur milli Toyota á Íslandi og Náttúrufræðistofnunar Íslands um stuðning við rannsóknir í Surtsey. Samningurinn kveður á um að Toyota styrki árlegar vöktunarferðir Náttúrufræðistofnunar til Surtseyjar næstu þrjú árin.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Surtsey hefur verið vöktuð síðan gosinu lauk. Jarðvísindamenn hafa einkum fylgst með kólnun eyjarinnar, móbergsmyndun, sjávarrofi og landmótun. Líffræðingar hafa farið til Surtseyjar um miðjan júlí ár hvert og leitað að nýjum tegundum plantna, smádýra og fugla. Þeir hafa fylgst náið með þróun lífríkisins sem hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu árum eftir að þétt mávabyggð tók að myndast í eynni. Á hverju ári finnast þar nýjar tegundir og lífríkið verður fjölbreyttara. Allar líkur eru á að sú þróun haldist áfram næstu áratugina og að lífríki Surtseyjar taki á sig svipaða mynd og í öðrum úteyjum Vestmannaeyja. Árið 2004 verpti lundi, einkennisfugl eyjanna, í fyrsta sinn í Surtsey og fylgjast vísindamenn vel með því hvernig honum gengur að ná þar fótfestu.

Surtsey tilnefnd á Heimsminjaskrá UNESCO

Endurnýjuð tilnefning Surtseyjar á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna var send til UNESCO í janúar 2007. Forsendur fyrir tilnefningu Surtseyjar á heimsminjaskrá eru tvíþættar. Annars vegar er eyjan einstakt dæmi um þróunarsögu jarðar, þýðingarmikil ferli í landmótun, bergmyndun og jarðeðlisfræði. Hins vegar er hún einstök vegna þess að þar hafa skapast og verið nýtt tækifæri til þess að fylgjast með aðflutningi, landnámi og þróun tegunda lífvera á lífvana landi og hvernig vistkerfi á landi og í hafinu verða til, samkvæmt fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert