Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, sagði á Alþingi í dag að verið væri að fara yfir fiskveiðistjórnunarkerfið með það að markmiði að gera það skilvirkara. Þannig væri verið að undirbúa það fyrir næstu úthlutun byggðakvóta, að einkum verði horft til minni byggðarlaga, sem ættu ekki eins mikil úrræði og þau stærri. Þá sagði Einar að til greina kæmi að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaganna til að geta brugðist við þegar kvóti er seldur.
Verið var að ræða vanda sjávarbyggða utan dagskrár á Alþingi að ósk Ingibjargar Ingu Guðmundsdóttur, varaþingmanns Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs. Sagði Ingibjörg Inga m.a. að sverðin héngu yfir sjávarbyggðunum í orðsins fyllstu merkingu og enginn vissi hvar þau myndu falla næst. Spurði hún til hvaða bráðabirgðaúrræða stjórnvöld ætluðu að grípa og hvenær og hvort til greina kæmi að byggðatengja veiðiheimildir í auknum mæli.
Einar sagði ekki fara á milli mála að vandinn væri gríðarmikill víða. Reynt hefði verið að setja inn í fiskveiðistjórnunarkerfið ýmsa byggðatengda þætti og þannig hefði hluti smábáta í kvótakerfinu verið aukinn í miklum ágreiningi. Einar sagði, að aflaheimildirnar væru fyrst og fremst á landsbyggðinni og þær hefðu færst á milli staða.
Auk þeirra aðgerða sem áður eru nefndar sagði Einar að verið væri að skoða tillögur frá útvegsmönnum og sjómönnum varðandi veiðiskyldu. Sagði Einar, að mikil krafa væri nú í pólitískri umræðu um að draga úr leigukvóta og auka veiðiskyldu. Sagðist Einar hafa staðið á bremsunni varðandi þetta en nauðsynlegt væri vegna hinnar pólitísku umræðu að skoða þetta á ný.
Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist vilja taka á því með ríkisstjórninni að vinna að aðgerðum í þessum málum. Hann sagði einnig, að það væri sanngirnismál, að það sérstaka veiðigjald sem sjávarútvegurinn greiðir, renni aftur til sjávarbyggðanna.
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sagði að þessi ríkisstjórn muni ekki sýna Flateyringum og öðrum Vestfirðingum tómlæti. Nú þegar væri búið að auglýsa 8-10 störf í tengslum við tillögur Vestfjarðanefndar og á næstunni verði 10 opinber störf til viðbótar auglýst sérstaklega fyrir Vestfirðinga. En það sem skipti mestu máli væri að styrkja grunngerðina, gera átak í samgöngumálum, hækka menntunarstig, gera landsbyggðinni kleift að efla menningu sína og tryggja jafnræði í fjarskiptum.
Össur sagði, að það sem gerst hefði á Flateyri væri skuggahlið kvótakerfisins og einn eðlisþáttur þess. Þetta hefði gerst áður og tryggja þurfi, að slíkt gerist ekki aftur.
Grétar Mar Jónsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði að það væri fiskveiðistjórnunarkerfinu að kenna hvernig staðan væri á landsbyggðinni; Gréta Mar sagði raunar að fiskveiðikerfið væri ræningjakerfi og hefði skapað ýmis félagsleg vandamál.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði að það væru dauðyflisleg viðbrögð ríkisstjórnarinnar við vandanum á Vestfjörðum, að setja tvo ráðherra á útkíkk hér syðra. Þá dygðu 20 opinber störf skammt upp í 200 störf sem hefðu verið og væru að hverfa á Vestfjörðum.
Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði m.a. að fráleitt væri annað en fara eftir ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um þorskkvóta. Þá sagði Bjarni, að vandi landsbyggðarinnar yrði ekki leystur með stýringu á sjávarútvegi heldur þyrfti að bæta búsetuskilyrðin þar, m.a. með breytingum á skattkerfinu.