Fækkun á biðlistum forgangsatriði í aðgerðaáætlun í þágu barna og unglinga

Frá blaðamannafundi ráðherra í dag þar sem þingmálin voru kynnt.
Frá blaðamannafundi ráðherra í dag þar sem þingmálin voru kynnt.

Ríkisstjórnin ætlar í dag að dreifa þingsályktunartillögu á Alþingi um fjögurra ára aðgerðaáætlun í þágu barna og ungmenna. Í þeirri áætlun er það skilgreint sem forgangsverkefni að vinna á biðlistum barna og ungmenna sem bíða eftir greiningu á Barna- og unglingageðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss og Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins.

Þá er er einnig sett fram markmið að lengja fæðingarorlof í áföngum á kjörtímabilinu og kemur fram í athugasemdum með ályktunartillögunni að markmiðið sé að orlofið verði 12 mánuðir.

Í gær var einnig dreift á Alþingi frumvarpi um breytingu á lögum um almannatryggingar þar sem kveðið er á um að atvinnutekjur ellilífeyrisþega 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á fjárhæð ellilífeyris, tekjutryggingar, vasapeningar og vistunarframlags frá Tryggingastofnun.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, kynntu þessi þingmál á blaðamannafundi í dag. Geir sagði að verið væri að byrja á ferli sem lyti að málefnum þessara hópa og skilgreind væru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Geir sagði, að ríkisstjórninni þætti mikilvægt að þessi tvö mál verði afgreidd á sumarþinginu nú og hann vænti þess að þar gæti náðst um þau góð samstaða.

Ingibjörg Sólrún sagði, að þessi tvö mál hefðu táknræna þýðingu vegna þess að það segi í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hún ætli að leggja áherslu á kjör og aðbúnað elstu og yngstu kynslóðanna. Með þingmálunum tveimur væri verið að fylgja þessu stefnumiði eftir og fagnaðarefni væri, að þau kæmust inn á sumarþingið nú. Hins vegar yrðu aðgerðirnar miðaðar við stöðuna í efnahagsmálum á hverjum tíma.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði mjög ánægjulegt að aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna skuli vera eitt af fyrstu málum ríkisstjórnarinnar. Um væri að ræða víðtæka áætlun í átta köflum sem tæki til margvíslegra aðgerða, sem snerti bætta stöðu barna og fjölskyldna. Þessi mál heyrðu undir fjögur fagráðuneyti, sem öll hefðu komið að gerð áætlunarinnar en settur var á fót starfshópur þessara ráðuneyta.

Guðlaugur Þór sagði að frumvarpið um málefni aldraðra væri afskaplega ánægjulegt og liður í því, að nýta betur þá auðlind sem fælist í eldra fólki.

Jóhanna var spurð á fundinum hvernig fyrrgreindum biðlistum verði eytt. Hún sagði að til þyrfti að koma sérhæft starfsfólk til viðbótar því sem nú er, og skoða þyrfti verkaskiptingu milli aðila, sem koma að hverskonar greiningu á börnum. „En auðvitað er þetta einnig spurning um aukið fjármagn og við gerum okkur fulla grein fyrir því að það þarf að setja aukið fjármagn í þetta til að ná niður biðlistunum," sagði Jóhanna.

Guðlaugur Þór sagði um þetta, að þegar hafi verið sett af stað vinna til að skoða hvernig þetta verði best gert. Málið væri ekki einfalt og m.a. kæmu þar til skoðunar kjaramál og fleira.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert