Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað fjóra unglingspilta af ákæru fyrir kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku en piltarnir voru sakaðir um að hafa sameiginlega þröngvað stúlkunni, sumpart með ofbeldi, sumpart með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar- og vímuefnaneyslu, til kynferðismaka við þá alla, ýmist einn eða tvo í einu.
Málið var kært í nóvember 2005. Fyrir dómi sögðust þrír af piltunum hafa viðhaft einhvers konar kynferðislegar athafnir gagnvart stúlkunni eða hún gagnvart þeim, en þær athafnir hafi verið með hennar vilja.
Í dómnum, sem fjölskipaður héraðsdómur kvað upp, segir að fram hafi komið að stúlkan var í samkvæmi umrætt kvöld með piltunum og hún keypti sér sjálf „landa“. Þá sagði hún að einhver „gaur“ hefði gefið henni amfetamín en hún sagðist ekki þekkja hann.
Þá sagðist hún hafa fækkað fötum fyrir einhvern strák og segir dómurinn, að það samræmist þeim framburði ákærðu piltanna og þriggja vitna, að stúlkan hafi verið fáklædd í samkvæminu.
Segir dómurinn að í málinu njóti ekki við annars en framburðar piltanna og stúlkunnar um kynlífsathafnir en við skoðun á neyðarmóttöku Landspítala hafi ekki verið að finna neina áverka á stúlkunni. Piltarnir hafi allir borið fyrir dómi að stúlkan hafi ekki andmælt kynlífsathöfnum þeim, sem þeir hafi viðurkennt að fram hafi farið í samkvæminu og haft frumkvæði að sumum þeirra.
Þá segir í dómnum að frásögn stúlkunnar sé afar reikul og gloppótt. Mennirnir hafi á hinn bóginn verið stöðugir í framburði sínum um að þeir hafi ekki þröngvað stúlkunni til samræðis eða notfært sér ástand hennar. Að mati dómsins auki á trúverðugleika framburðar þeirra, að sumir þeirra hafi viðurkennt fleiri kynlífsathafnir en stúlkan hafi gert grein fyrir, og efnislýsing ákæru virðist því byggð á framburði þeirra en ekki stúlkunnar sjálfrar. Jafnvel þótt vímuefnin, sem stúlkan neytti umrætt kvöld, hafi án efa haft þau áhrif á hana, að hún hafi orðið æst bendi framburður ákærðu og vitna sem voru í samkvæminu, og að hluta til framburður hennar sjálfrar ekki til þess að piltarnir hafi þröngvað henni til samræðis með ofbeldi eða hótunum eða að hún hafi ekki getað spornað við kynlífsathöfnum vegna áfengis- eða vímuefnaáhrifa.
Þá sé ekkert fram komið í málinu um að piltarnir hafi beitt annars konar nauðung við kynlífsathafnirnar. Líta beri til þess að piltarnir sjálfir séu allir ungir, einn sé ári eldri en stúlkan, tveir séu tveimur árum eldri og einn þeirra þremur árum eldri. Þau hafi öll neytt áfengis auk þess sem einn neytti einnig amfetamíns eins og stúlkan. Dómgreind allra ungmennanna hafi því án efa verið stórlega skert og megi leiða að því líkur að neysla þeirra hafi slævt siðferðisvitund þeirra og ýtt undir það hömluleysi sem virðist hafa ríkt í samkvæminu.
„Jafnvel þótt ekki verði alhæft um hvernig fórnarlömb kynferðisofbeldis hegða sér í kjölfar ofbeldis, verður ekki fram hjá því horft að sú háttsemi stúlkunnar að vera um kyrrt í íbúðinni löngu eftir að hún vaknaði, fara þá með einum ákærðu í verslun, sitja með þremur ákærðu í íbúðinni allt þar til faðir hennar hringdi í hana, bendir að mati dómsins ekki til þess að hún hafi litið svo á sem ákærðu hafi þröngvað henni til kynferðisathafna eða notfært sér það að hún var undir áhrifum vímuefna," segir m.a. í dómnum.
Fram kemur í dómnum, að umræddir atburðir hafi haft mikil áhrif á stúlkuna og valdið henni gríðarlegri vanlíðan sem meðal annars hafi birst í alvarlegri sjálfsskaðandi hegðun og sjálfsásökunum, þótt einnig verði af gögnum málsins ráðið að hún hafi átt við félagslega erfiðleika að stríða áður en atburðir þessir gerðust. Þótt dómurinn efist ekki um þau miklu niðurbrjótandi áhrif, sem umræddir atburðir hafi haft, geti andlegar afleiðingar atburðanna ekki einar sér leitt til þess að lögfull sönnun teljist liggja fyrir um þá háttsemi sem greind er í ákæru, gegn neitun piltanna.