Grafir aldinna klerka finnast í Reykholti

Frá uppgreftrinum við Reykholt.
Frá uppgreftrinum við Reykholt. mbl.is/Þorkell

Fornleifafræðingar sem standa að uppgreftri í gömlu kirkjustæði í Reykholtskirkjugarði grófu nýverið niður á þrjár kistur inni í gamla kirkjuskipinu. Fram kemur á fréttavef Skessuhorns, að uppgröftur hófst þar á ný í síðustu viku og er nú verið að grafa frá kistunum svo hægt sé að taka þær upp. Þær liggja hver við hliðina á annarri í kirkjuskipinu.

Guðrún Sveinbjarnardóttir, fornleifafræðingur sem stýrir verkefninu nú sem undanfarin ár sagði í samtali við Skessuhorn að vitað hefði verið að af kistunum. „Áður höfum við fundið eina kistu í kirkjunni en í henni lá Þorleifur Bjarnason prestur í Reykholti sem grafinn var árið 1783. Þessar kistur eru klárlega eldri en sú, en hve mikið getum við ekki enn sagt. Það eru skildir á tveimur þeirra sem gefa okkar upplýsingar um það, en þeir eru svo viðkvæmir að við þurfum að láta forverði Þjóðminjasafnsins um að skoða þá. Líklega eru þetta þó Reykholtsprestar, sem setið hafa hver á fætur öðrum á staðnum.“

Guðrún segir að í einni kistunni hafi fundist klæði, vefnaður með munstri, sem líklega hafi legið ofan á líkinu. Hún segir það óvenjulegt, áður hafi fundist vefnaðarleifar en ekki jafn fyrirmannlegar. Varlega verði að fara í að ná klæðinu upp, en svona skrautleg klæði bendi eindregið til að hér hafi verið um fyrirmenni að ræða.

Fram kemur í Skessuhorni, að fornleifauppgröfturinn í Reykholti hefur leitt í ljós kirkju sem búið er að tímasetja allt aftur á 12. öld. Grafirnar eru yngri, en þær eru svo djúpar að þær fara í gegnum eldri jarðlög. Ekki er enn komin full mynd af því hvernig kirkjuskipið leit út, en stefnt er að því að ná niður á botnleifar í sumar. Þessi vika fer í að ná kistunum upp og síðan verður grafið áfram í tvær vikur.

Skessuhorn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka