Hrefnuveiðum í vísindaskyni lýkur að mestu í júní - allt hrefnukjöt uppselt

Hrefna skýtur sér upp á yfirborð sjávar.
Hrefna skýtur sér upp á yfirborð sjávar. mbl.is/Jim Smart

Aðeins eru 28 hrefnur eftir af þeim 200 sem ákveðið var að veiða í vísindaskyni. Að sögn Gísla Víkingssonar, hvalasérfræðings hjá Hafrannsóknarstofnun, er áætlað að veiða megnið af dýrunum sem eftir eru nú í júní. Á þessu ári hafa 11 dýr verið veidd og er kjötið af þeim uppselt en hrefnuveiðimenn segja að brátt fáist ferskt hrefnukjöt á grillið þar sem veiðar hefjist á næstu dögum.

Árið 2003 var ákveðið að veiða 200 hrefnur í vísindaskyni. Áætlað var að klára þær veiðar á tveimur árum en sú áætlun stóðst ekki. Nú er útlit fyrir að hrefnuveiðum ljúki að mestu í júní en geyma á nokkur dýr til haustsins að sögn Gísla Víkingssonar hjá Hafró. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhald vísindaveiða á hrefnu.

Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Félags hrefnuveiðimanna,sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, að hlé hafi verið gert á hrefnuveiðum þann 25. maí vegna hvítasunnu og sjómannadagsins en nú sé Trausti ÍS, farinn á veiðar á ný. Þrír bátar stunda hrefnuveiðar að jafnaði.

Ekkert ferskt hrefnukjöt til í landinu

Á þessu fiskveiðiári hafa verið veiddar 11 hrefnur, 10 í vísindaskyni og ein hrefna var veidd í atvinnuskyni í nóvember síðastliðnum. Kjöt af þeim hefur selst upp og segir Gunnar því ekkert ferskt hrefnukjöt til í landinu. Salan á hrefnukjöti hafi gengið mun betur nú en fyrri ár.

„Við höfum pakkað kjötinu í neytendavænar umbúðir og það er meginástæðan fyrir mun betri sölu núna. Nú verðum við með ferskt hrefnukjöt í fyrsta sinn á markaði á þessum árstíma, þannig að fólk getur grillað hrefnu í sumar" sagði Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert