Ný hrina fjársvikatölvupósta virðist nú hellast yfir íslenska netheima. Um er að ræða tölvupósta, sem sagðir eru vera frá breska lottóinu The United Kingdom National Lottery, og í þeim er fólki tilkynnt að það hafi unnið umtalsverða fjárhæð í alþjóðlegu happdrætti sem farið hafi fram á netinu. Þá er vísað til bresku happdrættanna Camelot og National Lottery en engar upplýsingar um umrætt lottó er þó að finna á heimasíðum þeirra.
Í tölvupóstinum kemur fram að fólk þurfi að krefjast vinningsins innan fjórtán daga með því að senda ákveðnum aðila persónuupplýsingar um sig og tekið er fram að brot á trúnaði leiði til ógildingar vinningsins.
Embætti Ríkislögreglustjóra hefur varað fólk við að senda ókunnugum aðilum persónuupplýsingar um sig og er fólk beðið um að áframsenda slík skilaboð á netfangið he@rls.is.