Umhverfisstofnun hefur veitt tímabundna undanþágu til að nota svefnlyf sem veiðiaðferð á sílamáv og vegna umfjöllunar síðustu daga um fyrirhugaðar svæfingar máva í vísindaskyni vill Umhverfisstofnun koma því á framfæri að undanþágan er veitt dr Arnóri Þ. Sigfússyni líffræðingi í vísindaskyni til að rannsaka notkun slíkra lyfja.
Með undanþágunni er dr. Arnóri heimilað að nota blöndu af svefnlyfjunum Alphachlorolose og Seconal til að svæfa máva á hreiðrum í vísindaskyni, með því að setja blönduna í hreiður fuglanna.
Samkvæmt yfirlýsingu frá Umhverfisstofnun er leyfið bundið eftirfarandi skilyrðum:
- að tilraunin fari eingöngu fram í eftirtöldum vörpum;
Garðaholti/Gálgahraunssvæði, Korpúlfsstaðahólma og Þerney,
- að rannsóknin verði framkvæmd á einum sólarhring í hverju hinna þriggja
varpa á tímabilinu frá 1. júní til 30. júní 2007,
- að ekki verði svæfð/drepin fleiri en sem samsvarar 600 pör máfa í
rannsókninni.
Í leyfinu er ennfremur skýrt tiltekið að þess verði gætt að hvorki dauðir/svæfðir fuglar né svefnlyf verði skilin eftir í vörpunum að rannsókn lokinni, að svæðið verði vaktað meðan á tilrauninni stendur og að unnin verði skýrsla um tilraunina sem Umhverfisstofnun fái aðgang að.