Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og Framsóknarflokkurinn lögðu til að Alþingi vísaði frumvarpi um breytingar á þingsköpum Alþingis frá en tillaga þess efnis var felld eftir aðra umræðu í dag með 27 atkvæðum gegn 13 en 2 sátu hjá. Þingmenn Frjálslynda flokksins tóku undir gagnrýni á málsmeðferð en töldu eðlilegt að málið verði að lögum og kosið í þingnefndir samkvæmt nýju frumvarpi.
Samkvæmt frumvarpinu verður efnahags- og viðskiptanefnd skipt í tvær þingnefndir, efnahags- og skattanefnd annarsvegar og viðskiptanefnd hins vegar; og að landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndir verði sameinaðar.
Fyrsta umræða um frumvarpið var í gær og það var tekið fyrir á fundi í allsherjarnefnd þingsins í gærkvöldi og afgreitt þaðan óbreytt. Í áliti fulltrúa VG og Framsóknarflokks í allsherjarnefnd um frumvarpið sagði að það væri vanreifað og hafi enga skoðun fengið í þingnefnd, ekki hefði verið leitað samstöðu um efni þess með hefðbundnum hætti þó þingskapalög eigi í hlut og áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á verkaskiptingu innan stjórnarráðsins séu enn mjög óljós. Því ætti að vísa málinu frá.
Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði afgreitt sem lög frá Alþingi í dag eða á morgun.