Þrjátíu ár eru liðin frá því að viðbótarbókanir um bætta réttarstöðu óbreyttra borgara í ófriði voru gerðar við Genfarsamningana fjóra sem kveða á um vernd í stríði. Þann 8. júní 1977 voru gerðar viðbótarbókanir um borgarastyrjaldir og innanlandsófrið og taka tillit til nýjunga á sviði vopnabúnaðar.
Í fréttatilkynningu sem Rauði Krossinn sendi frá sér segir að Genfarsamningarnir hafi markað upphaf reglna um alþjóðlegan mannúðarrétt eins og við þekkjum hann nú.
Lykilatriðin í samningunum eru virðing og vernd gagnvart þeim sem ekki taka beinan þátt í stríðsátökum. Fyrsti samningurinn var gerður árið 1864 og sá síðasti árið 1949 og voru hinir þrír þá einnig endurskoðaðir.
Í viðbótarbókununum frá 1977 er kveðið á um að hersveitir megi ekki ráðast á eigur almennings heldur einungis þá hluti og byggingar sem hafa hernaðarlega þýðingu. Bannað er einnig að beita vopnum eða hernaðaraðferðum sem hafa í för með sér þarflausa eyðileggingu eða þjáningar.
Í tilkynningu Rauða krossins er bent á að ástandið í Líbanon sé slæmt. Hefur hreyfingin margítrekað áskoranir sínar til allra aðila að ófriðnum í Nahr el-Bared flóttamannabúðunum um að hlífa óbreyttum borgurum og borgaralegum mannvirkjum í kjölfar síendurtekinna árása þar.
Samkvæmt upplýsingum starfsmanna Rauða krossins og Rauða hálfmánans á staðnum eru þúsundir óbreyttra borgara enn í flóttamannabúðunum.
Alþjóða Rauði krossinn bendir einnig á ógnvænlega stöðu kvenna og barna í Kólumbíu sem sæta ofsóknum af völdum stríðandi aðila. Borgarstyrjöld hefur geisað þar áratugum saman. Utanríkis- og félagsmálaráðuneyti í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, flóttamannanefnd, Rauða kross Íslands og Reykjavíkurborg hafa ákveðið að bjóða öðrum hópi kvenna og barna hæli á Íslandi nú í sumar, en tekið var á móti flóttafólki frá Kólumbíu fyrir tveimur árum.
Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu Alþjóða Rauða krossins