andri@mbl.is
Á undanförnum sjö árum hefur verið unnið að því að setja hitastýrð blöndunartæki í íbúðir Brynju – hússjóðs Öryrkjabandalags Íslands. Þrátt fyrir það eru enn 30% íbúða án fullnægjandi blöndunartækja. Þetta eru u.þ.b. 90 íbúðir. Framkvæmdastjóri Brynju lofar úrbótum.
Í Morgunblaðinu í gær var fjallað um mál sextugs öryrkja, Ómars Önfjörð Kjartanssonar, sem búið hefur í íbúð í Hátúni 10B í 17 ár. Fyrir skömmu brenndist hann lífshættulega af völdum heits neysluvatns er hann fór í sturtu í íbúð sinni. Ómar liggur enn þungt haldinn á brunadeild Landspítala hann hlaut djúp annars og þriðja stigs brunasár á um 20% líkamans.
Ómar nýtur hvað mestrar þjónustu af íbúum í öryrkjablokkinni en þrátt fyrir það hefur ekki verið skipt um blöndunartæki í íbúð hans á þeim sjö árum sem unnið hefur verið að endurnýjun tækjanna. Blöndunartækin í íbúð hans eru þannig að stilla þarf kalt og heitt vatn sitt í hvoru lagi.
Ester Adolfsdóttir, framkvæmdastjóri Brynju, segist harma að atburðurinn hafi átt sér stað. Hún segir að gagngert hafi verið unnið að því að koma fyrir hitastýrðum blöndunartækjum og þau séu nú í um 70% íbúða. Ester segir að gengið verði í það strax að ljúka við að skipta um tækin, eins hratt og hægt er.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.