Ef ekki pillan, hvað þá?

Getnaðarvarnarpillan hefur reynst vinsæl, en ýmsar aðrar leiðir eru í …
Getnaðarvarnarpillan hefur reynst vinsæl, en ýmsar aðrar leiðir eru í boði. Kristinn Ingvarsson

Áhættuhópar, til dæmis konur sem hafa fengið blóðtappa, eiga móður eða systur sem hafa fengið blóðtappa, eru með háan blóðþrýsting, mígreni, flogaveiki eða eru of feitar geta ekki notað getnaðarvarnarpilluna. Þá eru margar konur sem kjósa að sleppa við óþægilegar aukaverkanir þeirra. Hvaða aðrar „öruggar“ leiðir eru í boði á getnaðarvarnarmarkaðnum?

„Hann sést ekki neitt, enginn veit af honum nema ég“ segir brosandi andlit á heimasíðu ónefnds getnaðarvarnarplásturs, enn einnar aðferðarinnar fyrir konur til að komast hjá getnaði. Annars staðar á síðunni eru heldur óhuggulegri skilaboð „Þú munt taka upp um 60% meira estrógen heldur en ef þú notaðir venjulega getnaðarvarnarpillu, sem inniheldur 35 míkrógrömm af estrógen.“ Reyndar innihalda nýjustu gerðir getnaðarvarnarpilla, af þriðju kynlóðinni svokölluðu, um 20-30 míkrógrömm (mgr) estrógen og getnaðarvarnarhringurinn aðeins um 15 mgr. Útlistunin heldur áfram, „yfirleitt veldur aukið estrógen aukinni hættu á aukaverkunum. Hættan á bláæða blóðreki (blóðtöppum í fótum og/eða lungum) gæti aukist með plástrinum miðað við getnaðarvarnarpillur sem innihalda 35 mgr af estrógeni.”

Á heimasíðu Yasmin er vísað sérstaklega í rannsókn, sem sýnir fram á að 86% kvenna viti ekki hvernig getnaðarvörn þeirra er samsett og þar með ekki hvernig hún virkar. Í raun hafa allar getnaðarvarnir, sem innihalda hormón, áhrif á starfsemi líkamans. Á íslensku heimasíðunni doktor.is eru margar misalgengar aukaverkanir getnaðarvarnapilla taldar upp s.s. blóðsegamyndun, krabbamein í lifur, breyting á hornhimnu augans, auk ógleði, uppkasta, bjúg og svo má lengi telja. Taka skal fram að áhrifin eru ekki í öllum tilvikum neikvæð. Talið hefur verið að hormónagetnaðarvarnir geti minnkað líkurnar á sjúkdómum líkt og krabbameini og blöðrum í legi, krabbameini í eggjastokkum, auk þess sem líkurnar á utanlegsfóstri eru minni. Að ógleymdu öryggi þeirra gegn óvelkomnum getnaði.

Vandræðalegar blæðingar

En konur nota ekki hormónagetnaðarvarnir bara til þess að koma í veg fyrir barneignir. Ný gerð getnaðarvarnarpilla stoppa blæðingar kvenna algjörlega, samkvæmt nýju tölublaði Women's Health Weekly í dag. Svo virðist sem verið sé að veita læknisfræðilega lausn á félagslegu vandamáli, því rökin sem gefin eru fyrir slíku stoppi eru að blæðingar séu óhreinlegar, vandræðalegar, kostnaðarsamar, trufli íþróttaiðkun og valdi vandamálum á ferðalögum.

„Getnaðarvarnarpillan gæti gagnast nokkrum konum sem eiga í sérstökum vandræðum með tíðarhringinn. Fyrir flestar konur, hins vegar, eru blæðingar hluti af hversdagsleikanum, en ekki læknisfræðilegt ástand,” segir Jean Elson, prófessor í kynja- og heilbrigðisfélagsfræði hjá New Hampshire Háskólanum, í blaðinu og bætir því við að hægt væri að spara konum vandræðalegheitin ef þeim væri ekki kennt að blæðingar séu skítugar og skammarlegar. Hagræðing tíðarhringsins er að hennar mati enn ein leiðin til þess að sjúkdómsvæða náttúrlegt, líffræðilegt ástand kvenna og huga beri að afleiðingum inngripa inn í það.

Kristján Oddsson, kvensjúkdómalæknir, telur slíka getnaðarvarnarpillu geta verið góð lausn þar sem það sé í raun óþarfi fyrir konur að hafa reglulegar blæðingar taki þær pilluna. „Venjulega pillu er hægt að taka stanslaust í þrjá mánuði, en ekki er ráðlegt að taka þær lengur þar sem þá fer að bera meira á óreglulegum blæðingum,” segir Kristján, „blæðingarnar sem konur fá þegar þær taka getnaðarvarnarpillu eru ekki raunverulegar blæðingar, heldur afleiðing þess að hormónamagnið fellur allt í einu.”

Hvaða aðrar leiðir eru færar?

Aðrar leiðir eru misöruggar og misspennandi, en þar ber fyrst að nefna smokkinn sívinsæla, þá eru það koparlykkjan, kvensmokkurinn, hettan ásamt sæðisdrepandi kremi, ófrjósemisaðgerðir og að lokum „náttúrulegar aðferðir” eins og rofnar samfarir og tíðarhringsaðferðina. Lengi hefur verið talað um karlapillu, en hún er ekki enn komin á markað.

Kvensmokkurinn náði aldrei vinsældum og náttúrulegu aðferðirnar þykja ekki öruggar. Á heimasíðunni doktor.is er mælt með hettunni fyrir konur sem ekki stunda oft kynlíf, en þær upplýsingar fengust hjá landlæknisembættinu að íslenskar konur séu nánast hættar að nota hettuna og hefur hún verið tekin af markaði. Í ástralskri rannsókn frá síðasta ári á notkun hettunnar kom í ljós að aðeins 5% kvenna kusu að nota hettuna sem getnaðarvörn. Flestar þeirra voru í elsta aldurshópi kvenna á barnsburðaraldri. Fram kom að eldri konur eigi auðveldara með að snerta kynfæri sín þegar hettunni er komið fyrir og hafi minni áhyggjur af áhrifum hennar á fyrirvaralaust kynlíf.

„Ef konan er í föstu sambandi þá hikar maður ekki við að mæla með lykkjunni,“ segir Kristján Oddsson, kvensjúkdómalæknir, en hann telur hormónalykkjuna vera öruggustu aðferðina sem er í boði. Önnur lykkja án hormóna, koparlykkjan, hentar konum sem átt hafa börn fyrir, en aukaverkanir hennar eru auknar blæðingar.

Í hormónalykkjunni er ekkert estrógen, svo hún hentar líka konum sem ekki geta notað pilluna. Helst er konum, sem ekki eru í föstu sambandi en hafa hug á því að eignast fleiri börn, ráðlagt frá því að nota hormónalykkjuna. Það er vegna þess að sýkingarhætta eykst samhliða fjölgun rekkjunauta og lykkja eykur þá hættuna á móðurlífsbólgu og ófrjósemi. „Konur, sem blæðir mikið og lengi, geta notið góðs af hormónalykkjunni,“ segir Kristján, „og í kjölfar þess að hún kom á markað hefur ófrjósemisaðgerðum fækkað.“ Lykkjan, með læknisviðtali og uppsetningu, kostar hátt í 20.000 krónur, en hún virkar í fimm ár. Til samanburðar kostar pillan um 60.000 krónur á fimm árum.

Kristján segir ólíkar konur hafa ólíka sýn á getnaðarvarnir og það sé mikilvægast að finna það sem hentar hverri og einni. Hormónaplástur og hringur henti konum sem eigi til að gleyma pillunni, en það geri hormónalykkjan líka. Öruggast sé þó að nota smokkinn, sérstaklega fyrir fólk sem eigi fleiri en einn rekkjunaut.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert