Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, segir að það sé mikilvægt að standa áfram vörð um starfsemi Íbúðalánasjóðs. Þetta kom fram í svari ráðherrans við fyrirspurn frá Guðna Ágústssyni, Framsóknarflokki, í utandagskrárumræðum um málefni Íbúðalánasjóðs. Segir Jóhanna að Íbúðalánasjóður verði ekki einkavæddur á meðan hún stjórnar félagsmálaráðuneytinu.
Guðni Ágústsson, spurði á Alþingi í dag félagsmálaráðherra hvort rétt sé að flytja eigi málefni Íbúðalánasjóðs frá félagsmálaráðuneytinu til fjármálaráðuneytisins. Hann spurði einnig hvort selja eigi Íbúðalánasjóð þrátt fyrir að meiri hluti þjóðarinnar vilji að hann verði áfram í eigu ríkisins.
Jóhanna Sigurðardóttir segir að það sé mikilvægt að standa áfram vörð um Íbúðalánasjóð. Hún segir að það sé ljóst að bankarnir muni ekki standa vörð um sjóðinn. Hún bætti við að hún hefði áhyggjur af félagslega hluta starfsemi Íbúðalánasjóðs. Hann verði að bæta. Hún segir að það sé átakanlegt hve margir hafi leitað til hennar frá því hún tók við sem ráðherra. Fólk sem á hvergi höfði sínu að halla og er ráðþrota í leit að húsnæði.
Hún sagðist jafnframt vera undrandi yfir þeim orðum sem forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa látið falla að undanförnu um Íbúðalánasjóð. Að sögn Jóhönnu hefur engin ákvörðun verið tekin um að gera breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs á meðal ríkisstjórnarflokkanna.