Greiddu atkvæði gegn samningi við Hjallastefnuna um Laufásborg

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Oddný Sturludóttir, og Vinstri grænna, Svandís Svavarsdóttir, greiddu atkvæði gegn samningi við Hjallastefnu um yfirtöku á rekstri leikskólans Laufásborgar á fundi Menntaráðs Reykjavíkurborgar í gær.

Í bókun þeirra kemur fram að faglegt starf og rekstur leikskólans Laufásborgar hefur verið til mikillar fyrirmyndar og óumdeilt að foreldrar, starfsfólk og stjórnendur leikskólans eru ánægðir með þá faglegu stefnu, Hjallastefnuna, sem þar hefur verið höfð að leiðarljósi um nokkurra ára skeið á vegum Reykjavíkurborgar. Laufásborg er einn af vinsælustu leikskólum borgarinnar og er staðsettur í rótgrónu, fullbyggðu hverfi.

„Það er áhugavert nýsköpunarverkefni að Hjallastefnan ehf. reki leikskólann í tvö ár sem faglegt tilraunaverkefni, enda hefur það notið stuðnings starfsfólks og foreldra. Stuðningur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna byggir á óbreyttum rekstrarforsendum í þennan afmarkaða tíma og að staðið verði fyllilega við þau fyrirheit sem starfsfólki hafa verið gefin um óbreytt kjör og réttarstöðu, sem og fyrirheit sem foreldrum hafa verið gefin um óbreytt leikskólagjöld.

Hvoru tveggja hafa forsvarsmenn Hjallastefnunnar fullvissað starfsfólk og foreldra um.

Í þeim samningi sem nú liggur fyrir er heimilað að Hjallastefnan rukki allt að 15% hærra gjald á Laufásborg en á öðrum leikskólum Reykjavíkurborgar. Það telja fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ekki boðlegt. Aðgengi að leikskóla á að okkar mati ekki að vera háð efnahag. Í það minnsta er ekki eðlilegt að borgaryfirvöld stuðli að því að fjölga slíkum plássum eins og hér er lagt til.

Þó börn sem nú eru skráð í leikskólann muni búa við óbreytt gjöld er fyrirsjáanlegt að börn, jafnvel á sama aldri, verði látin greiða mishátt gjald fyrir sömu þjónustu í leikskólanum næstu árin eftir því hvort leikskóladvöl þeirra hófst fyrir eða eftir upphaf tilraunaverkefnisins, en það telja fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óviðunandi og stangast á við jafnræðisreglu," að því er segir í bókun Samfylkingar og VG.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert