Fimmtudagskvöldgöngur þjóðgarðsins á Þingvöllum hófust fyrr í kvöld. Þessar gönguferðir sem farnar hafa verið undanfarin sex sumur hafa notið mikilla vinsælda. Í dag var Konungskoman 1907 og konungsglíman sem háð var í tilefni af heimsókninni á Þingvöllum rifjuð upp.
Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur ræddi tildrög og dagskrá heimsóknarinnar og hvaða móttökur voru skipulagðar í tilefni heimsóknarinnar. Einnig fjallaði hann um konungsheimsóknina sem áfanga í samskiptasögu Íslands og Danmerkur og bar hana saman við aðrar stórhátíðir á Þingvöllum.
Jón M.Ívarsson sagnfræðingur lýsti konungsglímunni og þeim sem tóku þátt í henni og þá sérstaklega Jóhannesi Jósefssyni glímukappa sem strengdi þess heit 7.janúar 1907 að halda velli á Þingvöllum þetta sumar.
Jóni M. Ívarssyni til fulltingis voru glímukapparnir Jóhannes Sveinbjörnsson, þrefaldur glímukóngur og bóndi í Þingvallasveit og Stefán Geirsson skjaldarhafi Skarphéðins en hann varð í öðru sæti í síðustu Íslandsglímu.
Þeir sýndu glímubrögð og tilþrif er þeir tókust á.