Nýr fríverslunarsamningur undirritaður

Samkomulag hefur verið áritað milli EFTA ríkjanna og Kanada um fríverslunarsamning milli ríkjanna.

Í fréttatilkynningu kemur fram að fríverslunarviðræðunum var ýtt úr vör í Reykjavík vorið 1998 í formennskutíð Íslands í EFTA. Hlé var gert á viðræðunum árið 2000 þegar fyrir lá nánast fullgerður samningstexti en ekki hafði tekist að útkljá ágreining EFTA ríkjanna og Kanada um tolla á skip og sjóför í innflutningi til Kanada. EFTA ríkin gátu alls ekki fallist á að skip yrðu undanþegin samningnum. Nú hefur verið ákveðið að tollar á skipum og sjóförum falli niður á mismunandi löngum aðlögunartíma og samningaviðræðunum er því lokið. Samningurinn verður undirritaður við fyrsta tækifæri. Að lokinni undirritun þarf að fullgilda hann í einstökum EFTA ríkjum og Kanada svo samningurinn komi til framkvæmda.

„Samningurinn er hagstæður fyrir Ísland. Samkomulag varð um niðurfellingu tolla á öllum iðnaðarvörum og ýmsum öðrum vörum sem Ísland framleiðir og flytur út. Sem dæmi má nefna sjávarafurðir, hross, lambakjöt, skyr, útivistarfatnað, fiskikör og aðrar vörur úr plasti, vogir, sem og vélar og tæki. Ísland veitir Kanada í staðinn tollfrjálsan aðgang fyrir iðnaðarvörur og sambærilegan aðgang fyrir landbúnaðarvörur sem Ísland hefur veitt Evrópusambandinu. Að frumkvæði Íslands er nýtt ákvæði í þessum fríverslunarsamningi sem fjallar um og liðkar fyrir tímabundnum aðgangi og dvöl fyrir lykilstarfsmenn fyrirtækja og starfsmenn við þjónustu í tengslum við vöruviðskipti," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert