Stefnt að fjölgun starfsmanna í umönnun við aldraða í Reykjavík

Droplaugarstaðir
Droplaugarstaðir

Hafinn er undirbúningur Droplaugarstaða hjúkrunarheimilis og Alþjóðahúss að viðamiklu samstarfsverkefni við starfsþjálfun nýrra erlendra starfsmanna í umönnun aldraðra. Markmið verkefnisins er að fjölga starfsmönnum í öldrunarþjónustu en skortur er á fólki í slík störf. Þrátt fyrir starfsmannaeklu í öldrunarþjónustu hefur margt erlent starfsfólk sýnt umönnunarstörfum áhuga og eru jafnvel menntaðir í þeim geira. Ónæg íslenskukunnátta hefur komið í veg fyrir að þeir geti sinnt þessum störfum, að því er segir í tilkynningu.

Verkefnið felst í því að bjóða nýju starfsfólki sem er að hefja störf á Droplaugarstöðum, Dalbraut og heimilisþjónustunni Aflagranda upp á eins mánaða starfsþjálfunar- og íslenskunámskeið á launum áður en hin eiginlega vinna hefst. Þannig lærir starfsfólkið bæði nauðsynlegan orðaforða til þess að geta haft eðlileg samskipti á vinnustaðnum og fá samtímis almenna starfsþjálfun og menningarfærni.

„Við viljum bæta öldrunarþjónustuna og það er nauðsynlegt að starfsfólkið geti skilið íslensku og tjáð sig við íbúa heimilisins,” segir Ingibjörg Bernhöft forstöðumaður Droplaugarstaða, í fréttatilkynningu.

Að sögn Ingibjargar Hafstað, kennslustjóra í Alþjóðahúsi, er þessi aðferð við þjálfun erlends starfsfólks tiltölulega ný af nálinni og jafnvel fyrsta sinnar tegundar á Norðurlöndunum. Alþjóðahús hefur undanfarin misseri lagt mikið upp úr íslenskukennslu og þróun nýrra aðferða til að koma til móts við þarfir samtímans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka