Einkaþotur verða æ algengari sjón hér á Íslandi, nota íslenskir viðskiptamenn sér þennan ferðamáta í auknum mæli auk þess sem erlendar þotur eru hér tíðir gestir. Í umræðu um loftslagsbreytingar hefur farþegaflug verið gagnrýnt fyrir að valda miklum útbæstri, en ferðalög með einkaþotum geta hins vegar valdið um tíu sinnum meiri útblæstri á hvern farþega.
Ef ferðalag fjögurra manna til Lundúna og til baka með einkaþotu af gerðinni Hawker 850XP er tekið sem dæmi losar hver farþegi tæplega þrjú tonn af koltvíoxíði eða litlu minna en fólksbíll af minnstu gerð gæti eytt á einu ári.
Sama ferð með Boeing 757 200 farþegaþotu með 189 farþegum losar aðeins 0,37 tonn á hvern farþega. Auðmenn ætti þó varla að muna um að kolefnisjafna ferðir sínar, því jöfnun á hvern farþega með einkaþotunni kostar aðeins rúmar 4000 krónur.
Ódýrt er fyrir hinn almenna ferðalang að kolefnisjafna utanlandsferð því aðeins 513 krónur kostar að jafna Lundúnaferðina samkvæmt reikniaðferðum Kolviðsverkefnisins.