„Hann gat ekki fótað sig, straumurinn tók hann"

Úr Þórsmörk.
Úr Þórsmörk.
Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

„Augnablikið var langt," segir Helga Garðarsdóttir, skálavörður í Langadal í Þórsmörk, sem bjargaði 14 ára dreng úr Krossá í fyrradag með því að elta hann meðfram ánni á dráttarvél og keyra svo út í. Hún segir atvikið frekar óraunverulegt í minningunni.

,,Hann gat ekki fótað sig, straumurinn tók hann. Ég komst niður fyrir hann og náði honum, en missti hann einu sinni. Þá fór hann undir traktorinn, það var frekar svakalegt. En þá hélt ég bara áfram niður eftir. Í einni beygjunni náði ég að smeygja traktornum út í þannig að strákurinn gat gripið í dekkið. Ég vissi að ef ég færi sjálf út í ána þá tæki straumurinn mig líka. Þá fór ég út, skorðaði mig við brettið á traktornum og gat gripið í höndina á honum. Ég notaði líkamsþyngdina til að toga hann að mér svo hann gæti gripið í eitthvað, en hann var orðinn ansi þreyttur og máttlaus. Svo hélt ég honum þangað til okkur var bjargað," segir Helga, en nærstaddur bílstjóri kom til hjálpar, tók við piltinum og dró hann að landi.

Pilturinn jafnaði sig fljótt að sögn Helgu, var bara með nokkrar skrámur eftir grjót í ánni. Hann bar sig vel síðar um kvöldið og var mjög þakklátur fyrir björgunina. ,,Þetta fór ótrúlega vel," segir Helga að lokum og játar því að tilfinningin sé góð að hafa getað hjálpað til.

Hún er reyndur leiðsögumaður og beinir þeim tilmælum til ferðamanna að fara varlega við straumharðar ár og vara aðra við hættum sem þeim fylgja.

Í hnotskurn
» Töluvert vatn var í Krossá þegar ungur piltur lenti í ánni.
» Fjölmennur hópur stóð hinum megin við ána og varð vitni að atvikinu. Atburðarásin tók sennilega ekki nema 3-4 mínútur.
» Helga segir Íslendinga almennt þekkja þær hættur sem fylgja jökulám, en upplýsa þurfi útlendinga mun betur um þessi mál.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert