Lýsa yfir áhyggjum af þróun sjávarútvegs á landsbyggðinni

Hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps hefur verulegar áhyggjur af þróun sjávarútvegs og atvinnu í sjávarþorpum á landsbyggðinni. Ljóst er að margar slíkar byggðir eiga í vök að verjast sökum þess hvað mikil samþjöppun á sér stað í eignarhaldi á kvóta sjávarfangs, að því er segir í tilkynningu. Svofelld ályktun var samþykkt samhljóða á hreppsnefndarfundi:

„Hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps vill með ályktun þessari benda á að byggðakvóti er hugsaður til þessa að styðja við þær sjávarbyggðir á landsbyggðinni sem eiga í vök að verjast við atvinnuuppbyggingu á grundvelli fiskvinnslu og fiskveiða. Til þess að aðgerð þessi hafi veruleg áhrif í þessa átt þarf heildarmagn þess kvóta sem til úthlutunar er að vera mun meira en raunin er á. Að öðrum kosti nær aðgerðin ekki tilætluðum árangri.

Stjórnvöld eru hvött til þess að breyting verði á þessu og ennfremur að við skiptingu byggðakvóta verði jafnvel úthlutað til lengri tíma, þ. a. mögulegt sé að byggja upp örugga atvinnu á grundvelli þessarar aðgerðar.

Úthlutun á 42 þorskígildistonnum til sveitarfélags eins og Vopnafjarðar, sem nánast hefur lagt allt undir til þess að halda fiskvinnslu á staðnum, hefur sáralítil sem engin áhrif fyrir atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Fyrir sveitarfélag, þar sem íbúarnir eiga langstærstan hluta afkomu sinnar undir sjávarútvegi er mikilvægt að stjórnvöld sjái til þess að sú stefna sem rekin er í sjávarútvegi landsins skapi grunn að því að vinna við fiskveiðar og vinnslu geti þróast með eðlilegum hætti. Verði ekki gripið til sértækra aðgerða í þessu sambandi er hætt við að mörgum sjávarbyggðum muni blæða á komandi árum.

Vopnafjarðarhreppur vill hvetja stjórnvöld til góðra hluta í þessum málum svo sjávarbyggðir landsins megi dafna sem best til framtíðar," að því er segir í tilkynningu.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert