Veggjakrot, hnupl og ólöglegur afi

Veggjakrot er hvimleitt og spjöll á eignum.
Veggjakrot er hvimleitt og spjöll á eignum. mbl.is/Brynjar Gauti

Tveir piltar voru staðnir að veggjakroti í Smáralind í gærkvöld. Piltunum, sem eru 13 og 14 ára, var komið til síns heima en rætt var við þá og foreldra þeirra. Veggjakrot er litið alvarlegum augum enda er um eignaspjöll að ræða. Annað slíkt mál barst lögreglu í fyrrakvöld. Þrír piltar, sem einnig eru 13 og 14 ára voru teknir fyrir sömu iðju í Breiðholti. Þremenningarnir voru nokkuð stórtækir og ljóst er að töluverð vinna fer í að fjarlægja sköpunarverk þeirra.

Því miður komu fleiri unglingar við sögu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gær. Tveir strákar um fermingaraldur voru staðnir að hnupli í matvöruverslun í austurborginni laust eftir hádegi og síðdegis var jafnaldri þeirra gripinn í Kópavogi. Sá reyndi að stela peningum úr búningsklefa. Stelpur falla líka í freistni en á miðvikudag voru tvær stúlkur, 12 og 13 ára, teknar í Smáralind. Þær höfðu tekið varning ófrjálsri hendi úr fjórum verslunum.

Drengur undir fermingaraldri var stöðvaður á litlu mótorhjóli í vesturhluta borgarinnar fyrr í vikunni en sá ók bæði um íbúðargötu og nærliggjandi tún. Aðspurður um þetta framferði benti strákurinn á afa sinn, sem var einnig á vettvangi, og sagði að hann hefði gefið honum leyfi fyrir þessum akstri.

Þeim var báðum bent á að afi væri ekki hafinn yfir lög og reglur og þetta væri með öllu óheimilt. Afinn og barnabarnið tóku tilmælum lögreglu vel og lofuðu bót og betrun en hjólið var bæði óskráð og ótryggt.

Drengurinn þarf að bíða í nokkur ár enn eftir skellinöðruprófi en þangað til getur hann æft sig á viðurkenndu svæði.

Eitt slíkt er í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þangað ættu foreldrar og forráðamenn áhugasamra vélhjólakrakka að leita. Æfingasvæðið er á Álfsnesi og þangað eru ungir vélhjólakappar velkomnir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert