Vilja fá upplýsingar um olíuverð á netinu

JIM Smart

Rúmlega þrír af hverjum fjórum landsmönnum telja mikilvægt að olíufélög birti upplýsingar um verð á vefsíðum sínum. Þetta kemur fram í könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir FÍB í lok maí og byrjun júní.

FÍB ákvað að kanna viðhorf almennings til slíkrar upplýsingagjafar eftir að olíufélagið N1 hætti í byrjun maí að birta upplýsingar um verð á eldsneyti á vefsíðu sinni, að því er segir í tilkynningu frá FÍB.

Forsvarsmenn N1 gáfu það upp sem ástæðu að neytendur vildu ekki sjá slíkar upplýsingar á vefsíðu félagsins. Ennfremur töldu þeir að skortur á verðupplýsingum væri ekki til minnstu óþæginda fyrir viðskiptavini sína, nema síður væri, samkvæmt tilkynningu FÍB.

FÍB vissi ekki til þess að neytendur hefðu eitthvað á móti því að hafa aðgang að verðupplýsingum á vefsíðum olíufélaganna, enda breytist eldsneytisverð mjög ört. Félagið gagnrýndi þessa afstöðu N1 harðlega og ákvað í framhaldinu að kanna viðhorf almennings til málsins, að því er segir í tilkynningu. Í könnun Capacent Gallup var spurt: "Telur þú það vera mikilvægt eða lítilvægt að olíufélög birti upplýsingar um verð á heimasíðu sinni?" Svör voru á þá leið að 76,7% töldu það mikilvægt, 11,6% lítilvægt og 11,6% hvorki né.

Könnun Capacent Gallup var gerð í síma dagana 22. maí til 4. júní 2007 og var svarhlutfall 62,0%. Úrtak var 1350 manns af öllu landinu, 16-75 ára, handahófsvaldir úr þjóðskrá. „„„„

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert