Siðanefnd Sambands íslenskra auglýsingastofa (SÍA) komst nýlega að þeirri niðurstöðu að nýafstaðin auglýsingaherferð Vífilfells á Coke Zero gosdrykknum bryti í bága við siðareglur sambandsins, þetta kemur fram í tilkynningu.
Auglýsingastofan Vatikanið gerði auglýsingarnar sem voru að hluta byggðar á erlendri fyrirmynd. Kæra vegna meintrar kvenfyrirlitningar í herferðinni barst Siðanefndinni og komst hún að þeirri niðurstöðu að auglýsingar í herferðinni brytu fyrstu grein siðareglna SÍA sem fjallar og velsæmi og segir: "Auglýsingar skulu ekki innihalda boðskap, í orðum eða myndum, sem brýtur gegn almennri velsæmiskennd".