Dr. Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst, greindi frá því í ræðu á háskólahátíð í dag að Menntasjóður Kaupþings banka hefði ákveðið að styrkja Háskólann á Bifröst um þrjátíu milljónir króna. Helming fjárins á að nota til að standa straum af kostnaði við námskeið í meistaranámi í alþjóðlegum banka- og fjármálafræðum. Hinn helming fjárins skal nota til að ráða erlenda kennara og til rannsókna, útgáfu og ráðstefnuhalds.
Dr. Ágúst lýsti mikilli ánægju sinni og þakklæti fyrir framlag Kaupþings banka og sagði jafnframt mikilvægt að hin öflugu fyrirtæki í landinu styrktu skólana með svipuðum hætti því engin væri útrásin og léleg lífskjörin ef ekki væru til góðir skólar þar sem framsækið og duglegt fólk sækir sér menntun.