gunnarpall@mbl.is
„Við þurfum að passa upp á að þetta verði ekki eins og á togaraárunum og þessi þrjú ár sem liðin eru verði bara eins og vertíð. Það verður að halda áfram og byggja eitthvað nýtt. Fjarðabyggð má ekki stoppa."
Þessi orð Ásmundar Ásmundssonar, fasteignasala í Fjarðabyggð, við Morgunblaðið í gær, lýsa e.t.v. vel því andrúmslofti sem nú ríkir á Reyðarfirði og raunar í byggðunum öllum nærri álveri Alcoa. Allir virðast gera sér grein fyrir því að uppbygging svæðisins er nú fyrst að byrja og sú gríðarlega þensla sem verið hefur á svæðinu var einungis tímabundin.
"Það sem mestu skiptir er að hugarfar fólksins hefur breyst. Nú telur það gott að búa á Austurlandi og veltir því ekki fyrir sér hvort það eigi að flytja burtu," segir Smári Geirsson og Samúel Sigurðsson, rekstrarstjóri Olís, segir mikilvægt að byggt verði upp öflugt tæknisamfélag við Reyðarfjörð. Ekki sé nóg að byggja bara álver og halda að það leysi allan vanda. Menntun og tækniþekkingu þarf til að nýsköpun eigi sér stað.
Bjartsýni einkennir hug flestra á svæðinu til framtíðarinnar. Þótt atvinnuframboð hafi verið mikið vegna framkvæmdanna mun nú reyna á hvernig atvinnulífið byggist upp á svæðinu í kringum stóriðjuna. Nú þegar er farið að skipuleggja stækkun hafnarinnar og ýmis fyrirtæki sjá þar sóknarfæri. Hvert svo sem farið er lýsir fólk mikilvægi tilkomu stóriðjunnar. "Ástandið var afar dapurt árin áður en ákvörðunin var tekin. Fólk trúði því raunar ekki að þetta myndi verða fyrr en framkvæmdir við álverið sjálft hófust, jafnvel þótt virkjunarframkvæmdirnar væru komnar vel af stað," segir Ásmundur.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.