„Það þarf að vinna landsskipulag fyrir miðhálendið og ég tel að það eigi ekki að ráðast í neinar stórframkvæmdir fyrr en að slíkt skipulag liggur fyrir. Skoðun mín hefur lengi verið að uppbyggðir vegir eigi ekki heima á miðhálendi Íslands,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra í opnuviðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Hún vill ekki að vegurinn yfir Kjöl verði malbikaður. Þórunn segist einnig andvíg hvalveiðum í atvinnuskyni, sú afstaða hafi ekkert breyst við það að verða ráðherra. Það mál segir hún snúast um ímynd Íslands á alþjóðavettvangi. Raunsætt viðhorf sé nauðsynlegt, enda geti veiðarnar skaðað orðstír landsins.