Þurfum að gefa þessu tækifæri

Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur

ylfa@mbl.is

JÓRUNN Frímannsdóttir, formaður velferðarráðs, segir heimili fyrir íbúa á vegum hins opinbera vera skilgreind sem heimili og svo hafi verið í langa tíð. Sú staðreynd að um heimili sé að ræða en ekki stofnun skipti höfuðmáli í þessu sambandi og því hafi verið ákveðið að miða við sama ferli og þegar Miklabraut 20 var sett á laggirnar. Spurð um þá skoðun lögmanna íbúa við Njálsgötu að ekki sé hægt að líkja Njálsgötu 74 við heimilið á Miklubraut 20 svarar Jórunn því til að eini munurinn á heimilunum felist í því að á Njálsgötu verði mun meiri félags- og heilbrigðisþjónusta sem komi utan úr bæ. Velferðarsvið muni leggja til starfsfólk á heimilið en um verði að ræða vakt allan sólarhringinn. Heimilismönnum verði boðið upp á öfluga félags- og heilbrigðisþjónustu frá þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar og heilsugæslunni í Reykjavík, líkt og gert sé fyrir önnur heimili.

Nauðsynlegt að láta reyna á þetta

Að sögn Jórunnar er nauðsynlegt að láta reyna á þetta. "Ef þetta er ekki heimili þá er ansi margt annað sem fellur undir þá skilgreiningu að vera stofnun og hvar stöndum við þá, t.d. varðandi sambýli fatlaðra af ýmsu tagi?"

Spurð um þær áhyggjur íbúa Njálsgötu að þeir verði fyrir miklu ónæði af völdum starfseminnar svarar Jórunn að reynslan sýni að svo verði ekki. Þá verði alltaf starfsmaður og jafnvel starfsmenn á staðnum. Reynist þeir einstaklingar sem þarna búi ekki hæfir til að dvelja þarna þá missi þeir strax húsnæðið.

Jórunn segir heimilið góða leið til að hjálpa þeim tíu einstaklingum sem þar muni dvelja af stað til nýs og betra lífs. "Reynslan af Miklubraut hefur sýnt okkur að við getum náð ótrúlegum framförum. Mennirnir geta nýtt sér margt ef þeir fá bara þennan litla stuðning sem þeir þurfa til þess að ná fótfestu." Unnið hafi verið faglega að því að finna hentugt húsnæði og hvað staðsetninguna varði sé ekki hægt að fara með svona heimili út fyrir miðsvæðið vegna þess að reynslan sýni að þá færu einstaklingarnir ekki heim.

Brýnt að finna samvinnugrundvöll

Jórunn segir að þótt engin krafa verði gerð til þess að tilvonandi íbúar heimilisins láti af neyslu hafi reynslan hins vegar sýnt að lífsmunstur breytist mjög mikið við að fá stuðning og hjálp. "Ótrúlegur árangur hefur náðst og auðvitað vonum við að það geti orðið þarna líka. Ég held að þetta sé leiðin til þess að gera bæinn okkar fallegri og skemmtilegri, það er mín sannfæring og þeirra sem best þekkja til á þessu sviði. Ég held að samfélagið þurfi á því að halda að við látum reyna á þetta."

Í hnotskurn
» Njálsgata 74 verður heimili fyrir heimilislausa karla en ekki stofnun.
» Eini munurinn á því og heimilinu á Miklubraut 20 felst í öflugri félags- og heilbrigðisþjónustu.
» Til stendur að starfsmaður verði til taks í húsinu allan sólarhringinn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka