Virkjanir OR eru skuldlausar eftir 15-16 ár

Hellisheiðarvirkjun.
Hellisheiðarvirkjun. mbl.is/Rax

Virkjanir Orkuveitu Reykjavíkur eru fjármagnaðar að fullu með lánsfé og er endurgreiðslutími virkjananna, þ.e. sá tími sem framlegð frá virkjunum eru að greiða að fullu til baka það lánsfé með vöxtum sem tekið er til þeirra, 15 til 16 ár. Eftir það eru þær eign OR skuldlaust.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá OR vegna fréttar í Fréttablaðinu í dag þar sem fyrirsögnin er að virkjanir Orkuveitunnar borgi sig ekki upp á 25 árum með raforkusölu til Helguvíkur.

„OR notar 10% ávöxtun eiginfjár við 25% eiginfjárhlutfall sem lámark fyrir það hvort virkjað er fyrir stórnotendur. Veginn fjármagnskostnaður, WAAC OR, í þessu tilfelli er 6,25% raun. Í tilfelli Helguvíkursamningsins er ávöxtun eiginfjár með þessum forsendum um 13%.

Orkuveitan gerir ráð fyrir að líftími jarðgufuvirkjana sé ekki minni en 50 til 60 ár og væntanlega mun lengri þar sem viðhald virkjana OR er eins og best gerist og ekki ólíklegt að virkjanirnar muni endast í yfir 100 ár með hliðsjón af því viðhaldi sem þær fá," að því er segir í tilkynningu frá OR.

Þar kemur fram að útreikningar á arðsemi samninga eins og samningnum um sölu til Helguvíkur séu flóknir þar sem taka þarf tillit til þróunar álverðs, gengis og vaxta til langs tíma. Þá skiptir máli hvernig verðbólga er meðhöndluð og að samræmis sé gætt í því.

„Rétt er að taka fram að OR er með lánshæfismat og fjármagnar framkvæmdir hjá stórum alþjóðlegum fjárfestingasjóðum sem allir leggja mat á aðferðafræði OR við arðsemi virkjana. Þá hefur Eftirlitsstofnun EES einnig lagt mat á aðferðafræði OR á útreikningi á arðsemi virkjana og hvort í orkuverðinu felist niðurgreiðsla á álvinnslu.

Þá er rétt að geta þess að rafmagnsframleiðsla í jarðvarmavirkjunum OR greiðir rekstrar og stofnkostnað í virkjununum sem ella yrði greiðast af heitavatnsframleiðslunni einvörðungu. Á Nesjavöllum nemur þessi kostnaður um 400 milljónum á ári sem kallaði á um 8% hækkun á heitavatnsreikningunum og svipað er með Hellisheiðarvirkjun þar sem framleiðsla á heitu vatni mun hefjast á árinu 2009. Ef ekki væri fyrir rafmagnsframleiðslu í virkjununum þyrfti heitavatnsreikningur borgarbúa því að vera 16% hærri. Þá hefur eigin framleiðsla OR einnig gert kleift að lækka rafmagnsverð um 25% miðað við vísitölu síðan rafmagnsframleiðsla fyrirtækisins í jarðvarmavirkjunum hófst," að því er segir í tilkynningu frá OR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert