Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segir stóra ógn vera fólgna í því að veiðar á þorski falli í þann farveg sem Hafrannsóknarstofnun leggur til. Sé staða þorskstofnsins þessi mun á næstunni hrikta í mörgum sjávarbyggðum og landsbyggðinni allri. Í framhaldinu munu ekki síst smærri fyrirtæki í sjávarútvegi lenda í erfiðleikum. Kvótakerfið sem slíkt verður í kastljósi, þótt það sé einföldun að kenna því einu um.
„Það er erfitt að deila við vísindamenn en samt mun þessi stærðfræðilegi veruleiki vekja upp margar spurningar. Hvers vegna eru sjómenn á flótta undan stórþorski, hvergi er hægt að kasta línu öðruvísi en þorskur sé á öngli?
Það er skylda okkar að fara yfir allar hliðar þessara mála, bæði árangur og afleiðingar af kvótakerfi, brottkasti og löndun fram hjá vigt. Hvers vegna er stofninn ekki stærri? Er verið að ganga á æti þorsksins og lífríki hans í hafinu? Þetta ber allt að ræða um leið og menn horfa til þess mikilvæga verkefnis hvaða nýjar leiðir eru til þess fallnar að efla sjávarþorpin á Íslandi," sagði formaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi í dag.