Innri samstaða framsóknarmanna brast

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundinum í dag.
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundinum í dag. mbl.is/Sverrir

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segir úrslitin í þingkosningunum í vor einhver verstu úrslit í kosningum fyrir Framsóknarflokkinn. Segir hann að framsóknarmenn verði að taka þeim með stillingu og bætti við að innri samstaða flokksmanna hafi brostið. Segir hann að Framsóknarflokkurinn hafi tapað í kosningunum og það sé engum öðrum að kenna en flokknum sjálfum.

Þetta kom fram í máli Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundi á Grand Hótel í dag.

Síðar í dag verður nýr varaformaður flokksins kjörinn en Valgerður Sverrisdóttir er ein í kjöri.

Guðni segir mikilvægt að efla starf ungs fólks í flokknum og eins kvenna. Hann segir Framsóknarflokkinn oft glíma við þá hugmynd að hann sé landsbyggðarflokkur. Hann segir að það sé hans skoðun að Framsóknarflokkurinn eigi að vera einn af þremur súlum í stjórnmálum ásamt Sjálfstæðisflokki og sterkum vinstri flokki.

„Vissulega verðum við sjálf að taka þessum úrslitum, bæði af ró og stillingu. Ástæður þessa er hægt að rekja til langs tíma og margra ólíkra atvika, en þegar svona ósigrar skella á er það innri samstaða flokksmanna sem hefur brostið.

Það sama gerðist í raun 1978, þótt ástæður þess ósigurs væru af allt öðrum toga. Sá kosningaósigur var í atkvæðahlutfalli jafn stór og nú, fylgið fór þá úr 25% í tæp 17%.

Hins vegar sást best rúmu ári síðar hvað bilið er stutt á milli stórra atburða þegar Framsóknarflokkurinn vann einn stærsta kosningasigur sinn í haustkosningum 1979.

Þannig geta kosningar snúist okkur í hag á undraskömmum tíma. Það er að miklu leyti undir okkur sjálfum komið, og stríðsgæfu, sem oft hefur verið okkur hliðholl í sögu Framsóknarflokksins.

Það er auðvitað mikilvægt við þessar aðstæður að við greinum vandann og setjum alla erfiðleika og persónuleg átök á ferfalt dýpi. Kveðjum sjálf sundurlyndisfjandann sem leikur alla grátt sem honum kynnast.

Við eigum öflugt pólitískt skip sem er Framsóknarflokkurinn – eigendur þess eru 12 þúsund flokksmenn sem vilja að þetta öfluga baráttutæki rói og afli fanga.

Við öll og áhöfnin verðum að vera samstíga um á hvaða mið skal róa og hásetarnir um borð verða að róa í takt við stefnuna sem þið markið, flokksmennirnir.

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur, hann á að vaxa upp frá rótunum. Þess vegna er það mjög mikilvægt verkefni nýrrar forystu og þingflokks á næstunni að hitta flokksmenn og hlusta á grasrót flokksins, innsta kjarnann, og leyfa því fólki að tala," sagði Guðni.

Framsóknarflokkurinn hefur unnið bæði til hægri og vinstri, hann hefur stýrt ríkisstjórnum. Hann hefur tekist á við löng tímabil í stjórnarandstöðu, svo sem á viðreisnarárunum, sagði Guðni.

Langt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn hefur gefist illa

„Ég vil vera hreinskilinn við ykkur, kosningunum töpuðum við og í raun er þar við okkur sjálf að sakast. Langt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn hefur reyndar gefist félagshyggjuflokkum illa. Þetta reyndi Alþýðuflokkurinn og við núna. Það er vegna þess að okkar innri samstaða brotnar, og jafnvel vegna þess að við látum ekki reyna á með ágreiningi ef brýtur á stórum málum í samstarfi þessara flokka."

Guðni spurði í ræðu sinni hvar flokknum hafi mistókst á síðustu 6–10 árum?

„Ég tel að síðustu 4–5 árin hafi verið okkur sérstaklega erfið og smátt og smátt veikt flokkinn.

Mikil atvinna og mikill uppgangur í landinu á þessu tímabili og batnandi lífskjör, gnægð nýrra tækifæra áttu að stækka okkur, en ekki sundra. Sjálfstæðisflokkurinn átti líka við gríðarlega erfiðleika að etja framan af þessum tíma. Hver maður ber dám af sínum sessunaut og líklegt að ýmislegt sem reyndi á Sjálfstæðisflokkinn hafi einnig brotnað á okkur. Nægir þar að nefna átök þess flokks við stórfyrirtækið Baug og þau málaferli öll, þar sem ásakanir gengu og ganga enn á báða bóga. Átök vegna fjölmiðlamáls og inngrips forseta Íslands í það mál. Hið margnefnda Íraksmál sem þáverandi forystumenn flokkanna tóku afstöðu með og Jón Sigurðsson hefur gert upp innan okkar flokks.

Það er heldur enginn vafi á því að þegar horft er til baka var það ásetningur sterkra afla, bæði í stjórnarandstöðu og þjóðfélaginu, að hamra á okkur og veikja Framsóknarflokkinn innan frá. Mikil óþreyja er áberandi í samfélaginu í dag og kröfugerð einstakra þjóðfélagshópa og stétta.

Einkavæðing og sala ríkisbankanna var hluti af því sjói öllu, eilíf svindl- og svikaumræða sem ekki átti við rök að styðjast, en var hamrað látlaust á í þingi og fjölmiðlum. Öll þessi umræða reyndi á ykkur flokksmenn um allt land og áróðurinn í þá átt að við værum í raun hægrisinnaðri flokkur en samstarfsflokkurinn lék okkur grátt af því að ýmsir í innsta kjarna töluðu með þessum hætti.

Á hitt ber líka að líta að í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn ber okkur mjög að rétta vinstri höndina fram. Vegna þess að það er oft svo að slíkar ríkisstjórnir fá á sig hægri blæ, umræðan er þannig. Mörg þau verk sem við unnum að á síðustu 12 árum vitna sannarlega um félagshyggju og samhjálp.

Þótt ég nefni hér nokkur þessara erfiðu mála þá er ég þeirrar skoðunar að flest málin, ef ekki öll, séu að baki," sagði Guðni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem nú stendur yfir.

Ræða Guðna Ágústssonar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert