Stefán Lárus Stefánsson, sendiherra, afhenti föstudaginn 1. júní s.l., Benedikt XVI páfa í Róm trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Páfagarði með aðsetur í Strassborg í Frakklandi.
Benedikt XVI páfi bað við þetta tækifæri fyrir sérstakar kveðjur til forseta Íslands, forsætisráðherra og ríkisstjórnar sem og íslensku þjóðarinnar, segir í frétt á vef utanríkisráðuneytisins. Hann hafði jafnframt orð á því að eftir því hefði verið tekið í Páfagarði og af alþjóðasamfélaginu hvernig Íslendingar hefðu stutt við friðargæsluverkefni og beitt sér í aðstoðarverkefnum víða um heim. Störf Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og NATO væru vel þekkt en minna þekkt væri það framtak Íslendinga að setja á laggirnar íslensku friðargæslusveitirnar.
Benedikt XVI páfi nefndi einnig að Íslendingar hefðu látið til sín taka í umhverfismálum, orkumálum og sjálfbærri þróun. Þeir sæju greinilega tengsl þessa þátta við Þúsaldarmarkmið S.þ. og hefðu á alþjóðavettvangi beint sjónum manna að því að meirihluti þeirra sem hefðu sjávarútveg sem sinn helsta atvinnuveg væru fjölskyldur í þróunarríkjum.
Páfi minntist á kaþólsku kirkjunna á Íslandi og sagði að þó safnaðarmeðlimir væru ekki margir þá hefðu þeir áhrif á íslenskt samfélag. Hann nefndi að lokum hjálparstarf safnaðarins og sagði fallegasta dæmi þess væri Karmelklaustrið í Hafnarfirði þar sem nunnurnar bæðu daglega fyrir velfarnaði Íslendinga.