Kona á níræðisaldri lést í heimasundlaug í Lundareykjadal um klukkan 15 í gær, sunnudag. Heimilisfólkið á bænum kom að konunni látinni nokkru eftir að hún hafði látið vita af sér og að hún ætlaði í laugina.
Lífgunartilraunir hófust strax og að var komið og var þeim haldið áfram eftir að lögregla og læknar komu á staðinn en báru ekki árangur, að því er segir í frétt á vefnum Skessuhorn.
Fyrr í dag var greint frá því hér á mbl.is að konan hefði drukknað. Eftir að athugasemd barst þá var fréttinni breytt hér á mbl.is og eru hlutaðeigandi beðnir afsökunar á þessu.
Unnið er að rannsókn á dauðsfallinu en ekki liggur fyrir dánarorsök.