Í kjölfar ummæla sem Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst, hafði á háskólahátíð í skólanum sl. laugardag hefur Runólfur Ágústsson, fyrrverandi rektor sent frá sér yfirlýsingu. Þar átelur Runólfur orð Ágústar og gerir jafnframt grein fyrir ástæðum þess rekstrarvanda sem núverandi rektor sagði fyrrum stjórnendur skólans hafa sett skólann í, að því er fram kemur á vef Skessuhorns.
Orðrétt segir Runólfur m.a.: „Ágúst Einarsson ætti sem nýr rektor að huga að áframhaldandi vexti og uppbyggingu á Bifröst í stað þess að níða skóinn af forverum sínum. Störf hans munu í framtíðinni verða metin út frá þeim forsendum en ekki fortíðinni. Mér þykir sem viðhorf núverandi rektors til fyrrverandi stjórnenda og starfsfólks á Bifröst sé hvorki stórmannlegt, framsýnt né sanngjarnt.“