Synti til Hafnarfjarðar

Benedikt Hjartarson var sex tíma á sundi í misjöfnu veðri.
Benedikt Hjartarson var sex tíma á sundi í misjöfnu veðri. mbl.is/Guðni Gíslason

Það er ekki á hverjum degi sem menn koma syndandi til Hafnarfjarðar en sjósundmaður­inn Benedikt Hjartarson synti úr Nauthólsvík að Flensborgarhöfn, samtals 15,5 km á laugardaginn og var aðeins 6 klst. og 5 mínútur á leiðinni.

Fram kemur í Fjarðarpóstinum að Eyjólfur Jónsson, sundkappi hafi árið 1956 synt sambærilega leið (14 km) á 7 klst. en hann synti að Sundhöll Hafnarfjarðar. Þangað náði Benedikt á 5,23 klst. og bætti metið verulega. Veðurskilyrði voru ekki góð rigning og rok mestan hluta leiðarinnar og hitastig sjávar aðeins 8,9°C.

Félagar úr Björgunarsveit Hafnarfjarðar fylgdu Benedikt alla leið á opnum bát til að fyllsta öryggis væri gætt.

Sund Benedikts er liður í undirbúningi hans fyrir sund yfir Ermasund í júlí. Væntanlegir þátttakendur verða að sýna fram á að þeir geti synt a.m.k. í sex tíma í 16 gráðu heitum sjó. Sund Benedikts er mikið afrek í þessum kalda sjó.

Mikil vakning er á meðal sjósundmanna á Íslandi og er þegar búið að teikna upp tillögu að aðstöðu fyrir utan Sundhöllina við Herjólfsgötu og bíða sjósundmenn nú í ofvæni eftir að sú aðstaða verði tekin í notkun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert