Tæplega 30 teknir undir áhrifum fíkniefna við akstur

Lögreglan á Borgarnesi hefur haft afskipti af 28 ökumönnum sem hafa verið undir áhrifum fíkniefna við akstur það sem af er þessu ári. Til samanburðar má nefna að færri en 10 ökumenn voru teknir undir áhrifum lyfja við akstur allt síðasta ár í umdæminu.

Í dag er akstur undir áhrifum vímuefna ekki þolaður en þar eru engin refsimörk líkt og er með akstur undir áhrifum áfengis. Það er bannað að stjórna ökutæki eftir neyslu áfengis sama hve mikið eða lítið það er. Menn mega ekki setjast á bak við stýri ef vínandamagnið í blóði þeirra fer ekki upp fyrir 0,5 prómill. Hafa ber þó í huga að 0,5 prómill eru eingöngu svonefnd refsimörk og getur lögregla bannað ökumanni að keyra tímabundið t.d. ef viðkomandi mælist með 0,4 prómill. Til eru dæmi þess að lögregla taki bíllykla og geymi þar til runnið er af ökumanni.

Hvað varðar vímuefni er um „núllstefnu“ að ræða líkt og fram komið á síðum Morgunblaðsins, n.t.t. í fréttaskýringu þann 31. maí sl. Þar kom fram að stefnan hafi verið lögfest með breytingu á umferðarlögum í byrjun júní árið 2006. Ef ólögleg fíkniefni mælast í blóði eða þvagi ökumanns skal honum umsvifalaust dæmd refsing, burtséð frá magninu. Eftir því sem magnið eykst þyngist refsingin.

Frá því lagabreytingin tók gildi hefur lögreglan í auknum mæli kært ökumenn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Í fyrra voru þeir rúmlega 90 á landinu öllu en á fyrstu fimm mánuðum þessa árs eru þeir orðnir 150 talsins. Þeim hefur svo fjölgað það sem af er júní mánuði.

Hluti skýringarinnar á fjölguninni er að bannið gegn akstri undir áhrifum fíkniefna er nú mun afdráttarlausara en fyrr en sumir lögreglumenn telja að fíkniefnaakstur sé algengari en áður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka