Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði leggjast eindregið gegn byggingu háhýsa á lóðinni við Strandgötu þar sem Hafnarfjarðarbíó og Kaupfélagshúsið stóðu áður. Þetta kemur fram í ályktun sem þeir hafa sent frá sér.
„Slík hús myndu gjöreyðileggja götumyndina og yrðu verulegt lýti á miðbænum. Gamla bárujárnshúsabyggðin á að fá að njóta sín hér eftir sem hingað til en á ekki að vera falin á bak við steinsteypuklumpa. Hagsmunir verktaka af að troða sem mestu byggingamagni á sem minnst svæði eiga ekki að verða til þess að misbjóða fegurðarskyni og smekkvísi bæjarbúa. Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði skora á bæjarstjórn að hafna háhýsunum og afstýra þar með stórfelldasta skipulagsslysi í sögu miðbæjar Hafnarfjarðar," að því er segir í ályktun Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði.