VG vilja hlíta ráðgjöf Hafró

mbl.is

Þingflokkur VG telur skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um ástand þorskstofnsins fela í sér mjög alvarlegar upplýsingar og álítur annað ábyrgðarlaust en hlíta ráðgjöfinni, fara að tillögum um samdrátt í veiðum og innleiða hina nýju aflareglu. Þetta kemur fram í ályktun þingflokksins.

„Pólitískum ákvörðunum um veiði úr þorskstofninum langt umfram ráðgjöf eins og viðgengist hefur um árabil verður að linna og beita verður varúðarnálgun um veiðiálag þannig að takast megi að snúa núverandi þróun við og byggja hrygningarstofninn upp stig af stigi. Horfast verður í augu við að mistekist hefur að vernda og byggja stofninn upp með núgildandi fiskveiðistjórn, verndunaraðgerðum og ákvörðunum um veiðiálag. Sú staðreynd og alvarlegar horfur um viðkomu þorskstofnsins næstu árin eru frekari röksemdir fyrir því að endurmeta verði undirstöður og aðferðafræði á þessu sviði frá grunni, þar á meðal skoða samverkandi áhrif veiða mismunandi tegunda nytjastofna. Þingflokkurinn vísar í þessu sambandi m.a. til ályktana síðasta landsfundar VG og til tillöguflutnings þingmanna flokksins á Alþingi þar sem fjallað er um ýmsa grunnþætti sem rannsaka verði miklu betur og um mikilvægi þess að innleiða vistvænar aðferðir og stuðla að sjálfbærri þróun í greininni.

Þingflokkurinn lýsir sig reiðubúinn til þverpólitísks samstarfs um heildarendurskoðun allrar aðferðafræði við fiskveiðistjórn og skipan sjávarútvegsmála, en ljær ekki máls á þátttöku í neins konar sýndarmennsku eða yfirborðskenndum viðbrögðum við þeim alvarlegu aðstæðum sem blasa við í sjávarútveginum.

Samhliða fyrirsjáanlegum samdrætti í veiðum og endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar er óumflýjanlegt að grípa til markvissra hliðaraðgerða til að treysta undirstöður atvinnulífs og búsetu í sjávarbyggðunum, sem margar eiga þegar í erfiðleikum og þurfa svo í framhaldinu að takast á við afleiðingar minni þorskveiða. Þingflokkurinn mun leggja til við flokksstjórn að myndaður verði starfshópur eða teymi á breiðum faglegum og flokkslegum grunni sem vettvangur vinnu, samráðs og stefnumótunar af hálfu VG á þessu sviði næstu misseri," að því er segir í ályktun frá þingflokki Vinstri grænna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert