Akureyri: Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti lokað dagana 14 -17. júní

Vegna hátíðarhalda um komandi helgi má búast við talsverðum fjölda gesta sem munu koma til Akureyrar í tengslum við þá atburði sem í boði eru. Sú ákvörðun hefur verið tekin að hafa Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti lokað dagana 14 -17. júní, þetta kemur fram í tilkynningu.

Fram kemur að þetta verði gert vegna fyrri reynslu, þ.e. vegna óviðunandi umgengni gesta á tjaldsvæðinu og í kring og vegna hættu sem skapast af mikilli umferð þar.

„Öllum tjaldgestum er því beint að tjaldsvæðinu að Hömrum en þar er nóg pláss og góð aðstaða. Dvalargestum er bent á að kynna sér reglur tjaldsvæðisins svo allir geti notið dvalarinnar og bendum jafnframt á að til að komast að tjaldsvæðinu er best að aka Eyjafjarðarbraut vestari að Kjarnaskógi og síðan í gegnum Kjarnaskóg að Hömrum. Minnt er á að ungmennum innan 18 ára aldurs er ekki heimil dvöl á tjaldsvæðinu nema í fylgd með forráðamanni og þeim orðum er beint til foreldra og forráðamanna að senda ekki börn sín yngri en 18 ára, eftirlitslaus til Akureyrar,“ segir í sameiginlegri tilkynningu frá Útilífsmiðstöðinni að Hömrum, Forvarnafulltrúa Akureyrarbæjar, Lögreglunnar á Akureyri og Bílaklúbbs Akureyrar.

Til að tryggja að allt fari vel fram verður gripið til ýmissa ráðstafana sérstaklega í tengslum við bíladaga. Umferð bíla um tjaldsvæðið að Hömrum verður takmörkuð. Gæsla verður aukin og í samstarfi við lögreglu verður gripið til ráðstafana gagnvart þeim sem ekki virða reglur, s.s. um ölvun, umgengni og almenna hegðun. Lögreglan mun verða með hert umferðareftirlit í og við bæinn, áfengismæla, svo og aukna löggæslu í bænum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert