Tveir karlmenn á fertugsaldri voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdir í 18 og 12 mánaða fangelsi fyrir fólskulega líkamsárás á Hverfisgötu í ágúst á síðasta ári. Voru þeir dæmdir fyrir að hafa margsinnis slegið mann hnefahöggum, sparkað í hann liggjandi, og misþyrmt honum með öðrum hætti.
Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að háttsemi árásarmannanna hafi verið fólskuleg. Sammæltust þeir fyrir fram um að fara að manninum. Allur aðdragandi og framferði þeirra ber þess merki að þeir hafi verið búnir að ákveða að þriðji maður myndi tryggja að þeir gætu tveir afskiptalaust gengið í skrokk á fórnarlambinu en árásarmennirnir eru samkvæmt niðurstöðu dómsins miklir á velli og stendur fórnarlambið þeim talsvert að baki hvað líkamlega burði varðar. Þá var atlagan slík að hún sýndi vægðarleysi og hrottaskap, að því er segir í niðurstöðu dómara.
Annar maðurinn á að baki refsidóm þar sem hann var sakfelldur fyrir að ryðjast inn á ritstjórn blaðs og ganga þar í skrokk á ritstjóra þar sem hann var ósáttur við umfjöllun viðkomandi fjölmiðils, samkvæmt því sem segir í niðurstöðu dómara en Símon Sigvaldason dæmdi í málinu.