Byrjað er að taka á móti tilboðum í íbúðir í 2. áfanga Skuggahverfis í miðbæ Reykjavíkur, en þar rís nú 19 hæða og 63 metra hár turn. Áætlað er að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar árið 2009. Hefur viðmiðunarverð íbúðanna verið birt á vefsíðunni www.101skuggi.is en verðið er frá 83 milljónum upp í tæpar 230 milljónir króna fyrir hverja íbúð. Harpa Þorláksdóttir, markaðsstjóri 101 Skuggahverfis, sagði í samtali við Morgunblaðið að tilboð væru þegar byrjuð að skila sér, en hún segir það vera fólk allt frá þrítugsaldri og upp úr sem sækist eftir íbúðum í Skuggahverfinu. Hið háa verð sagði hún að miklu leyti stýrast af staðsetningu, gæðum húsbygginganna sjálfra og öðrum þáttum á borð við gott útsýni.