Lögreglan í Árnessýslu óskar eftir vitnum að aksturslagi bifhjóla um Suðurlandsveg aðfararnótt mánudags svo og þeim sem urður sjónarvottar að slysinu sem varð á Breiðholtsbrautinni þegar ökumaður annars hjólsins ók aftan á bifreið á Breiðholtsbraut.
Í dagbók lögreglunnar kemur fram að alvarlegt umferðarslys varð á Breiðholtsbraut um kl. 00:15 aðfaranótt mánudagsins 11. júní þegar ökumenn tveggja bifhjóla slösuðust við það að annar lenti aftan á bifreið sem hann hugðist aka fram úr og kastaðist við það af hjólinu. Ökumanni hins hjólsins fipaðist einnig og datt við það.
Tildrög málsins eru þau að lögreglumenn frá Selfossi mældu hraða tveggja bifhjóla sem ekið var vestur Suðurlandsveg efst í Kömbunum 180 km/klst. kl. 00:05:27. Ökumenn beggja hjólanna virtu að vettugi stöðvunarmerki lögreglu og óku sem leið lá til Reykjavíkur, sinntu ekki stöðvunarmerkjum við lokanir sem Lögregla Höfuðborgarsvæðisins hafði sett um við Hólmsá heldur héldu áfram för sinni með fyrrgreindum afleiðingum.
Lögreglan í Árnessýslu óskar eftir vitnum að aksturslagi bifhjólanna um Suðurlandsveg svo og þeim sem urðu sjónarvottar að slysinu. Þeir sem hafa upplýsingar á sínum snærum eru vinsamlegast beðnir að hringa í síma 480-1010.