Óhöppum hefur fjölgað á Keflavíkurflugvelli

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/ÞÖK

Að undanförnu hefur borið á seinkunum á flugi í gegnum Keflavíkurflugvöll sem rekja má til árekstra milli þjónustutækja og flugvéla. Hafa farþegar þurft að bíða í allt að 18 klukkutíma vegna þessa. Upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar segir að rekja megi þetta til sívaxandi umferðar um flugvöllinn.

Fréttavef Morgunblaðsins er kunnugt um að minnsta kosti þrjú tilvik á síðustu tveimur vikum þar sem farþegar hafi lent í allt að 18 tíma seinkunum á flugi sínu. Í öllum tilvikum var farþegum tjáð að seinkunin væri vegna árekstrar milli þjónustutækja flugvallarins og viðkomandi flugvélar.

Fleiri árekstrar en áður vegna aukinnar flugumferðar

Friðþór Eydal hjá Flugmálastjórn Keflavíkur, staðfesti að óhöpp af þessu tagi hafi aukist að undanförnu. Að sögn Friðþórs þarf lítið út af bera til að óhöpp verði á milli flugvéla og tækja sem eru lögð upp að þeim. Ef núningur á sér stað eru óhöppin flokkuð sem öryggisóhöpp sem þarf að rannsaka. Kalla þurfi út öryggissérfræðinga og í einhverjum tilvikum lögreglu því oft getur verið um tryggingamál að ræða.

„ Skoðun eða lagfæring á flugvél þýðir alltaf seinkun fyrir farþega, því aðalatriðið er að flugið sé öruggt" segir Friðþór sem segir skýringuna á fleiri óhöppum milli þjónustutækja á Keflavíkurflugvelli og flugvéla megi rekja til síaukinnar umferðar um flugvöllinn sem skapi meira álag á starfsfólk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert