Umsóknarfresti vegna umsókna í 115 lóðir í Úlfarsárdal í Reykjavík var að ljúka og hafa alls 374 umsóknir borist í lóðirnar sem hafa byggingarétt fyrir 388 íbúðir.
Reykjavíkurborg auglýsti þann 24. maí síðastliðin eftir umsóknum í fjórar lóðir fyrir fjölbýlishús, 38 par- og raðhúsalóðir og 73 einbýlishúsalóðir í Úlfarsárdal, alls 388 íbúðir. Lóðirnar eru seldar á föstu verði sem borgaryfirvöld segja að sé kostnaðarverð. Viðbrögð voru treg í fyrstu og aðeins 15 sóttu um lóðir fyrstu vikuna.
Ágúst Jónsson, skrifstofustjóri Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við mbl.is að tregðan hafi verið ósköp eðlileg vegna þess mikla magns upplýsinga og gagna sem umsækjendur þurftu nú að reiða af hendi. Samanburður á lóðaumsóknum í Úlfarsárdal við umsóknir á lóðum við Lambasel í Reykjavík þegar á sjöunda þúsund umsóknir bárust, væri ekki sanngjarn því þá hafi fólk sótt um og síðan þurft að afhenda ýmis gögn ef það var dregið úr pottinum.