Ósigur íslenska landsliðsins í knattspyrnu í landsleik Íslands og Svíþjóðar á dögunum vakti litla ánægju hér á landi. Fimmta og síðasta mark Svía í leiknum hefur þó víða vakið mikla kátínu og myndskeið þar sem markið er sýnt á YouTube var um tíma í efsta sæti yfir þau mest skoðuðu á vefnum.
Tæplega 720.000 manns hafa skoðað myndskeiðið sem birt er undir fyrirsögninni „Sweden vs. Iceland FUNNY GOAL MUST SEE!!!”, síðan það var sett á vefinn fyrir tæpri viku. Myndskeiðið er í sjötta sæti yfir þau mest skoðuðu síðustu viku og fær nær fullt hús stiga hjá notendum, eða fjórar og hálfa stjörnu af fimm mögulegum.
Markið þykir með því furðulegasta sem sést hefur á knattspyrnuvellinum í seinni tíð. Ívar Ingimarsson, varnarmaður íslenska landsliðins, var með knöttinn inni í vítateig, og virtist hann ásamt öðrum á vellinum halda að dómarinn hefði flautað. Ívar sendi svo boltann á Svíann Marcus Allbäck sem virtist líka halda að dómarinn hefði flautað, en ákvað að skjóta á markið engu að síður. Allbäck skoraði og var Svíum dæmt markið í kjölfarið líkt og þekkt er orðið.