Framtíðarlandið: stóriðjuskattur á almenning rúmir 2 milljarðar árlega

Frá því er Hálslón var að myndast
Frá því er Hálslón var að myndast mbl.is/Brynjar Gauti

Ný skýrsla Atvinnulífshóps Framtíðarlandsins um Kárahnjúka var kynnt á fundi í morgun. Í skýrslunni er reynt að leita svara við þeirri spurningu hvort bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði hafi verið rétt og skynsamleg miðað við arðsemi, umhverfiskostnað, lýðræði, byggðasjónarmið og hagstjórn. Niðurstaða skýsluhöfunda er sú að svarið við þessari spurningu sé afdráttarlaust nei.

Í skýrslunni er m.a. bent á að rök hafi verið færð fyrir því að almennur markaður niðurgreiði í reynd stóriðjurafmagnið. „Miðað við arðsemiskröfur sem eðlilegt er að gera er stóriðjuskattur á almenna viðskiptavini Landsvirkjunar vel yfir 2 milljarða króna á ári," segir m.a. í skýrslunni.

Þessu vísaði Stefán Pétursson, framkvæmdarstjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar, alfarið á bug og sagðist ekki taka undir þessa útreikninga. „Við teljum að verkefni eins og Kárahnjúkavirkjun standi ljómandi vel undir sér,“ sagði Stefán og minnti á að ekkert hefði verið slegið af arðsemiskröfum í tengslum við virkjunina. Þessu eru skýrsluhöfundar ósammála því þeir benda á að einkafjárfestar hafi ekki viljað setja fé í Kárahnjúkavirkjun af frjálsum vilja og því sé ljóst að hún hafi ekki staðist prófið um einkaarðsemi.

Skýrsluhöfundar benda á að verulegt tap verði á framkvæmdinni sé reiknað með lágmarks gjaldi fyrir landnotkun og hóflegar bætur greiddar fyrir umhverfisspjöll.

Umhverfisráðherra telur að taka hafi átt umhverfiskostnað með í útreikninga

Í pallborðsumræðum að lokinni kynningu á skýrslunni sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, að taka hefði átt með í reikninginn þann umhverfiskostnað sem fylgdi framkvæmdinni. „Ég er þeirrar skoðunar að við getum ekki látið eins og land sé einskis virði. Við getum deilt um hversu mikils virði það er, t.d. með tilliti til eftirspurnar eða huglægs gildis í hugum fólks, eins og gert er í skilyrtu verðmætamati. að mínu mati er það einfaldlega markaðsbrestur að taka ekki umhverfiskostnað, eins og þann sem lýtur að verðmæti lands, inn í það reikningsdæmi sem arðsemisreikningsdæmið er."

Skýrslu Atvinnuhópsins um Kárahnjúka má nálgast í heild sinni hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka