Hópur bifhjólamanna mældur á 174 km hraða

Þrátt fyrir mjög alvarlegt umferðarslys á dögunum virðist sem sumir bifhjólamenn láti sér ekkert að kenningu verða. Í gærkvöld var hópur bifhjólamanna staðinn að ofsaakstri á Þingvallavegi en þeir óku á 174 km hraða.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru mennirnir á austurleið en lögreglan hugðist stöðva þá við afleggjarann að Skálafelli og kom sér þar fyrir með blikkandi ljós. Tæplega helmingur hópsins, sem taldi um tíu bifhjólamenn, ók framhjá lögreglumönnunum og hafði stöðvunarmerki þeirra að engu en hinn hluti hópsins sneri við og hélt í áttina að höfuðborginni. Ekki kom til eftirfarar en unnið er að rannsókn málsins og ekki er útilokað að þessir ökufantar náist, að sögn lögreglu.

„Það er kaldhæðnislegt en jafnframt átakanlegt til þess að hugsa að á þessum hluta Þingvallavegar varð banaslys fyrir nokkrum árum þegar bifhjólamaður lét lífið. Kross í minningu hans er staðsettur nærri afleggjaranum að Skálafelli en þar fóru ökufantarnir einmitt um í gærkvöld eins og fyrr var getið," að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka