Málflutningi í Baugsmálinu lokið

Fjölskipaður héraðsdómur.
Fjölskipaður héraðsdómur. mbl.is/ÞÖK

Málflutningi í Baugsmálinu svonefnda lauk á þriðja tímanum í dag, en eftir hádegið fengu lögmenn sakborninga að koma sínum vörnum við. Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, var fyrstur til og krafðist þess að skjólstæðingur sinn yrði sýknaður.

Gestur fór yfir rökstuðning í dómi Hæstaréttar frá 1. júní sl., en þá var tíu ákæruliðum vísað aftur í hérað, og sagði að dómurinn hefði ekki gert athugasemd við efnislega niðurstöðu héraðsdóms - um að refsiheimildir séu ekki nægilega skýrar til að hægt sé að sakfella. Hins vegar hafi verið bent á að óskýrar refsiheimildir leiði ekki til frávísunar, heldur sýknu.
Gestur sagði héraðsdóm þegar hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að refsa Jóni Ásgeiri og sú niðurstaða geti ekki verið til endurskoðunar hjá sömu dómendum. Forsendur og niðurstöður héraðsdóms séu endanlegar á meðan æðri dómstóll hefur ekki sagt annað.

Jakob R. Möller, verjandi Tryggva Jónssonar, fór þá efnislega yfir 19. ákærulið en þar er Tryggva gert að sök að hafa dregið að sér fé með því að láta Baug greiða fyrir einkanotkun á kreditkorti sem skráð var á Nordica, félag Jóns Geralds Sullenberger.
Jakob benti m.a. á fáránleika þess að Tryggvi, sem gat gert um fjögurra milljón króna kröfu á Baug vegna dagpeninga, hefði dregið að sér 1,3 milljónir króna, og í raun mun minna þegar tillit hefur verið tekið til þeirra kostnaðarliða sem Baugur átti í raun að greiða, s.s. vegna þeirra liða sem tengdust viðskiptum. Jafnframt sagði Jakob að engin vafi leiki á því að Tryggvi hafi haft ríflega risnuheimild og Jón Ásgeir gerði sjálfur engar athugasemdir við notkun þess kortsins.

Þá fór Brynjar Níelsson, verjandi Jóns Geralds, fáeinum orðum um ákæru á hendur skjólstæðingi sínum. Hann krafðist sýknu og efaðist um að skilyrði fyrir sakfellingu væru fyrir hendi. Benti Brynjar m.a. á að það hefði ekki verið ásetningur Jóns Geralds að aðstoða meðákærðu við að hagræða bókhaldi Baugs. Honum hefði í raun ekki dottið það til hugar að reikningurinn tilhæfulausi yrði notaður í bókhaldinu, svo tilhæfulaus var hann.

Arngrímur Ísberg dómsformaður sagði við lok dómþingsins að dómur yrði kveðinn upp fyrir mánaðarmót.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert